Fréttir

Sérstök heimslistamót sett á laggirnar fyrir afrekskylfinga
Grafarholtsvöllur.
Mánudagur 15. apríl 2019 kl. 12:36

Sérstök heimslistamót sett á laggirnar fyrir afrekskylfinga

Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar, Golfklúbbinn Oddur og Golfklúbbur Reykjavíkur hafa ákveðið að setja á laggirnir svokölluð heimslistamót fyrir afrekskylfinga í sumar. Greint er frá þessu á vefsíðu Golfsambands Íslands, Golf.is, en allt er þetta gert í samráði við GSÍ.

Mótin munu öll gefa stig á heimslista áhugamanna og er það stór tilgangur mótanna að leyfa afrekskylfingum að vinna sér inn fleiri stig á heimslistanum ásamt því að gefa þeim tækifæri á að keppa meira.

Mótin verða þrjú yfir allt sumarið, eitt hjá hverjum klúbbi, og verða leiknar 54 holur á 2-3 dögum. Hámarksfjöldi þátttakenda er 30 og mega aðeins áhugamenn vera með. Líkt og á GSÍ mótaröðinni eru forgjafarmörk og eru þau 5,5 hjá körlum og 8,5 hjá konum.

Mótin verða:

1. Heimslistamót GKG, 17. - 18. maí
2. Heimslistamót GO, 23. - 24. ágúst
3. Heimslistamót GR, 13. - 15. september 

Rúnar Arnórsson
[email protected]