Fréttir

Slæm byrjun hjá Green í titilvörninni
Hannah Green hefur titil að verja á KPMG PGA meistaramótinu.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 8. október 2020 kl. 22:45

Slæm byrjun hjá Green í titilvörninni

Brittany Lincicome og Kelly Tan eru jafnar í forystu eftir fyrsta hringinn á KPMG PGA meistaramótinu sem fer fram í Bandaríkjunum. Mótið er þriðja risamót ársins í kvennagolfinu og er haldið á Aronimink golfvellinum.

Skor keppenda var almennt nokkuð hátt á fyrsta keppnisdeginum en þær Lincicome og Tan léku báðar á 3 höggum undir pari og eru höggi á undan sex kylfingum sem deila þriðja sætinu.

Efsti kylfingur stigalista LPGA mótaraðarinnar, Danielle Kang, er ein þeirra sem lék á 2 höggum undir pari. Kang hefur nú þegar sigrað á tveimur mótum í ár og er til alls líkleg um helgina.

Sigurvegari síðasta árs, Hannah Green, er jöfn í 125. sæti eftir fyrsta keppnisdaginn eftir að hún lék fyrsta hringinn á 79 eða 9 höggum yfir pari. Green, sem sigraði mótið á 9 höggum undir pari í fyrra, fékk alls fimm skolla og tvo tvöfalda skolla á hring dagsins og spilaði sig í leiðinni nánast úr mótinu.

Annar hringur mótsins fer fram á morgun, föstudag, en mótið klárast á sunnudaginn. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Staða efstu kylfinga:

1. Brittany Lincicome, -3
1. Kelly Tan, -3
3. Cydney Clanton, -2
3. Lydia Ko, -2
3. Danielle Kang, -2
3. Linnea Strom, -2
3. Carlota Ciganda, -2
3. Gaby Lopez, -2