Fréttir

Slappur Woods byrjaði illa
Tiger Woods.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 18. júlí 2019 kl. 21:52

Slappur Woods byrjaði illa

Opna mótið, fjórða risamót ársins hófst í dag og er það J.B. Holmes sem er í forystu eftir fyrsta daginn á samtals fimm höggum undir pari.

Það voru mörg stór nöfn sem áttu slæman dag á vellinum. Til að mynda lék Rory McIlroy á 79 höggum. Tiger Woods byrjaði heldur ekki vel og var hann ansi þungur í brún eftir hringinn.

„Ég er stífur. Upphitunin hjá mér í dag var alls ekki góð. Ég átti erfitt með að hreyfa mig og var að reyna finna sveiflu sem ég gæti komið mér á rétta staði. Ég er ekki 24 ára lengur. Lífið breytist og það heldur áfram. Ég get ekki lengur eytt mörgum klukkustundum á æfingasvæðinu, farið svo að spila 36 holur, æft aðeins meira og farið svo í ræktina. Það er búið hjá mér. “

Woods lék hringinn í dag á 78 höggum, eða sjö höggum yfir pari, og er hann jafn í 144. sæti eftir daginn. Hann fékk aðeins einn fugl í dag en á móti fékk hann einn skramba og sex skolla. Ljóst er að hann þarf frábæran hring á morgun ætli hans sér áfram.