Fréttir

Soderberg setti met á Evrópumótaröðinni
Sebastian Soderberg.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 27. janúar 2020 kl. 10:00

Soderberg setti met á Evrópumótaröðinni

Svíinn Sebastian Soderberg setti á sunnudaginn met á Evrópumótaröð karla þegar hann lék lokahringinn á Omega Dubai Desert Classic mótinu á einum klukkutíma og 35 mínútum.

Soderberg var einn í holli á lokadeginum og þar sem hann var á 7 höggum yfir pari fyrir daginn vissi hann að hann ætti lítinn möguleika á sigri í þetta skiptið.

Þess í stað ákvað Soderberg að spila eins hratt og hann gæti. „Mig hefur alltaf langað að skokka og spila eins hratt og ég gæti. Ég var í smá vandræðum síðustu tvo daga hugsaði að spilamennskan myndi líklega ekki versna við að skokka á milli högga og hugsa ekki of mikið.“

Soderberg lék lokahringinn á 75 höggum eða þremur höggum yfir pari og bætti met Thomas Pieters sem átti hraðasta hring í sögu Evrópumótaraðarinnar þegar hann spilaði á einum klukkutíma og 59 mínútum á Opna ítalska í fyrra.