Fréttir

Spilaði tvo hringi með Bjarka í lokaúrtökumótinu
Rasmus Hojgaard. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 8. desember 2019 kl. 16:30

Spilaði tvo hringi með Bjarka í lokaúrtökumótinu

Daninn Rasmus Hojgaard sigraði á AfrAsia Bank Mauritius Open mótinu sem kláraðist í dag og varð þar með þriðji yngsti sigurvegarinn í sögu Evrópumótaraðarinnar.

Hojgaard tryggði sér þátttökurétt á Evrópumótaröðinni fyrr í haust þegar hann endaði í 5. sæti á lokaúrtökumótinu fyrir mótaröðina sem fór fram á Lumine svæðinu á Spáni.

Auk Hojgaard kepptu þar kylfingar á borð við Guðmund Ágúst Kristjánsson, Andra Þór Björnsson og Bjarka Pétursson í lokaúrtökumótinu en Hojgaard spilaði einmitt með Bjarka fyrstu tvo hringina í mótinu.

Í samtali við Kylfing sagði Bjarki að það væri frábært að sjá Danann sigra á Evrópumótaröðinni, sérstaklega þar sem Bjarki spilaði á lægra skori en Hojgaard þá hringi sem þeir léku saman.

„Hann er frábær. Það er virkilega „impressive“ að sjá hann vinna í sínu öðru móti eftir úrtökumótið. Það er frábært líka fyrir mig að sjá hversu langt hann er búinn að komast eftir að hafa spilað með honum. Það sýnir að það er allt hægt.“

Að lokum sagði Bjarki að hann hefði séð á þessum hringjum hver munurinn væri á þeim tveimur og því viti hann hvað hann þarf að bæta.

„Það er auðvelt að bera saman leikinn hjá okkur og sjá muninn. Inn fyrir 25 metra er hann frábær og það er hluti sem ég þarf að vinna í.“


Bjarki Pétursson.