Fréttir

Streb komst í 10 milljón dollara klúbbinn
Rober Streb.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 23. nóvember 2020 kl. 18:47

Streb komst í 10 milljón dollara klúbbinn

Robert Streb náði merkilegum áfanga í gær þegar að hann fagnaði sigri á RSM Classic mótinu. Ásamt því að vinna sitt annað mót á ferlinum á PGA mótaröðinni þá varð hann 198. kylfingurinn í sögu mótaraðarinnar til þess að þéna yfir 10 milljón dollar.

Fyrir helgina var Streb búinn að þéna 9.965.729 dollara og vantaði því aðeins 34.271 dollara til að komast í 10 milljónir. Fyrir sigurinn fékk hann 1.188.000 dollara og hefur hann nú þénað 11.152.729 dollara. Hann er nú kominn í 176. sæti á listanum yfir tekjuhæstu kylfinga sögunnar á PGA mótaröðinni.

Það er að sjálfsögðu Tiger Woods sem er efstur á þeim lista en hann hefur á sínum ferli þénað tæplega 121 milljón dollara og er hann tæplega 29 milljónum á undan Phil Mickelson sem situr í öðru sætinu.

Tommy Fleetwood gat einnig náð þeim áfanga að þéna yfir 10 milljónir á PGA mótaröðinni um helgina. Hann þurfti að enda mótið á meðal 25 efstu. Hann endaði aftur á móti jafn í 37. sæti og vantar hann því aðeins 765 dollara til að þéna 10 milljónir. Hann mun því komast yfir það mark þegar að hann kemst næst gegnum niðurskurðinn á PGA móti. Hann getur þá orðið aðeins 10. kylfingurinn til að ná því afreki án þess að hafa unnið mót á mótaröðinni, svo framarlega sem hann vinnur ekki næsta mót.