Fréttir

Stúlknalandsliðið leikur í C-riðli
María Eir Guðjónsdóttir lék best íslensku stúlknanna í dag. Ljósmynd: Marinó Már
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 6. júlí 2022 kl. 22:54

Stúlknalandsliðið leikur í C-riðli

Það er sannkölluð golfhátíð á Urriðavelli Golfklúbbsins Odds í vikunni en Evrópumót stúlknalandsliða hófst þar í gær. Þetta er í fyrsta sinn sem mótið fer fram á Íslandi en EM kvenna fór fram á sama velli árið 2016.

Keppnisfyrirkomulagið er með þeim hætti að fyrstu tvo keppnisdagana er leikinn höggleikur þar sem að fimm lægstu skorin hjá hverju liði telja. Liðunum er raðað upp í riðla eftir árangri í höggleiknum, átta efstu liðin leika í holukeppni í A-riðli um Evrópumeistartitilinn og önnur lið leika um sætin þar fyrir neðan. Í B-riðli er leikið um sæti 9.-16 og í C-riðli um sætin þar fyrir neðan.

Í holukeppninni eru leiknar tvær umferðir á dag. Í fyrri umferðinni eru leiknir tveir fjórmenningsleikir (Foursome) þar sem tveir leikmenn leika gegn tveimur öðrum leikmönnum og hvort lið leikur einum bolta. Eftir hádegi eru leiknir fimm tvímenningsleikir, þar sem einn leikmaður leikur gegn öðrum leikmanni.

Ljósmynd: Marinó Már

Okkar stúlkur sátu eftir fyrsta keppnisdaginn í 15. sæti. Þær léku samtals á skori sem telur 47 högg yfir par vallarins. Eftir annan keppnisdag sátu þær í 16. sætinu og leika þær því holukeppnina í C-riðli. Fyrsti leikur Íslands er gegn Austurríki og hefst hann um hálfátta í fyrramálið.

Um Evrópumeistaratitilinn leika í 8-liða úrlsitum:

Frakkland - Tékkland

Spánn - Þýskaland

Svíþjóð - Danmörk

England - Belgía

Staðan á mótinu

Lið Íslands skipa þær Berglind Erla Baldursdóttir úr GM, Karen Lind Stefánsdóttir úr GKG, Pamela Ósk Hjaltadóttir úr GM, Sara Kristinsdóttir úr GM, María Eir Guðjónsdóttir úr GM og Katrín Sól Davíðsdóttir úr GM. Ragnhildur Kristinsdóttir er liðsstjóri.

 Efri röð frá vinstri: Pamela Ósk Hjaltadóttir, Katrín Sól Davíðsdóttir, Berglind Erla Baldursdóttir. Neðri röð frá vinstri: Ragnhildur Kristinsdóttir liðsstjóri, Karen Lind Stefánsdóttir, María Eir Guðjónsdóttir og Sara Kristinsdóttir. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson