Fréttir

Sveinbjörn og Elín stóðu uppi sem sigurvegarar á Opna sænska mótinu
Frá vinstri: Sveinbjörn Guðmundsson, Þóra María Fransdóttir og Elín Fanney Ólafsdóttir
Mánudagur 29. ágúst 2016 kl. 15:48

Sveinbjörn og Elín stóðu uppi sem sigurvegarar á Opna sænska mótinu

Í dag lauk Opna sænska meistaramótinu í golfi en leikið var á golfvelli í borginni Kalmar í Svíþjóð. Golfsamtak fatlaðra á Íslandi sendi frá sér þrjá fulltrúa en það voru þau Sveinbjörn Guðmundsson, Elín Fanney Ólafsdóttir og Þóra María Fransdóttir sem öll leika fyrir Golfklúbbinn Keili.

Sveinbjörn gerði sér lítið fyrir og vann A-flokkinn en sá flokkur var fyrir kylfinga með undir 11,4 í forgjöf. Hann lék hringina tvo á 77 höggum og 80 höggum og var samtals á 1 höggi undir pari með forgjöf. Keppnin í A-flokki var æsispennandi en Sveinbjörn endaði höggi betri en Svíinn Alexander Forsman.

„Ég er mjög ánægður með skorið, 77 og 80 högg á mjög þröngum og erfiðum skógarvelli sem er í þokkabót langur er mjög flott. Slátturinn var stöðugur og stutta spilið frábært. Fyrir lokaholuna átti ég eitt högg á Svíann og hann fékk skolla. Ég þurfti því að setja niður meters pútt fyrir mínum skolla sem tókst,“ sagði Sveinbjörn sem var ánægður með sigurinn.

Í B-flokknum stóð Elín Ólafsdóttir uppi sem sigurvegari eftir að hafa leikið hringina tvo á 4 höggum yfir pari með forgjöf. Þóra María Fransdóttir náði þriðja sætinu með því að leika á 25 höggum yfir pari með forgjöf. Frábær árangur hjá íslensku kylfingunum og ljóst að æfingar sumarsins í Hraunkoti hafa skilað sér.

Ísak Jasonarson
[email protected]