Fréttir

Tæplega 26 ára tímabili Mickelson á meðal 50 efstu gæti heyrt sögunni til um helgina
Phil Mickelson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 15. október 2019 kl. 09:16

Tæplega 26 ára tímabili Mickelson á meðal 50 efstu gæti heyrt sögunni til um helgina

Það eru eflaust fáir sem muna eftir hvað þeir voru að gera 27. nóvember árið 1993. Til að mynda var „Mrs. Doubtfire“ vinsælasta bíómyndin í Bandaríkjunum, „I Would Do Anything for Love“ með Meatloaf var vinsælasta lagið og það er einnig í síðasta skiptið sem Phil Mickelson var ekki á meðal 50 efstu í heiminum.

Núverandi efsti maður heimslistans, Brooks Koepka, var þriggja ára, Tiger Woods var á síðasta árinu sínu í menntaskóla og Nick Faldo var efstur í heiminum. 

Eftir að hafa endað í öðru sæti á Casio World Open mótinu komst Mickelson í 47. sæti heimslistans og hefur hann verið á meðal 50 efstu í heiminum allar götur síðan, eða samtals 1351 viku. Ernie Els var á sínum tíma í 965 vikur á meðal 50 efstu og er hann sá kylfingur sem kemst næst Mickelson. Rory McIlroy er sá kylfingur sem er næstur á eftir Mickelson sem er enn á meðal 50 efstu, eða 596 vikur.

Þetta tímabil gæti hins vegar klárast nú um helgina á CJ Cup mótinu sem fram fer í Suður-Kóreu. Mickelson er númer 47 á heimslistanum og hefur árið ekki byrjað vel hjá honum. Líkurnar eru þó ekki miklar en samkvæmt sérfræðingum um heimslistans eru líkurnar minni en 10% á að hann fallir niður fyrir 50. sæti.

Aftur á móti þá getur Mickelson tryggt stöðu sína á meðal 50 efstu með góðum árangri um helgina.