Fréttir

Takk fyrir samfylgdina á árinu - svona var árið á Íslandi
Aron Snær Júlíusson og Hulda Clara Gestsdóttir Íslandsmeistarar í golfi árið 2021.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
föstudaginn 31. desember 2021 kl. 12:56

Takk fyrir samfylgdina á árinu - svona var árið á Íslandi

Kylfingur þakkar lesendum sínum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og óskar kylfingum gleðilegs árs.

Árið 2021 var viðburðaríkt í íslensku golfi og iðkendum fjölgar stöðugt. Skráðum kylfingum í golfklúbbum fjölgaði um 2000 frá árinu 2020 eða um 12% og hafa aldrei verið fleiri.

Kylfingum fjölgar á Íslandi

Þetta er í takt við það sem hefur gerst á heimsvísu en kylfingum hefur fjölgað um 10% frá árinu 2016.

Kylfingum fjölgar á heimsvísu í faraldrinum

Haukur Örn Birgisson lét af störfum sem forseti Golfsambandsins eftir farsæla setu í stólnum frá árinu 2013. Hulda Bjarnadóttir tók við af Hauki í forsetastólnum og eru miklar vonir bundnar við hennar störf.

Hulda Bjarnadóttir er nýr forseti GSÍ

Aron Snær Júlíusson og Hulda Clara Gestsdóttir úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar léku frábært golf og sigruðu á Íslandsmótinu í golfi sem haldið var á Akureyri í mikilli veðurblíðu í ágúst.

Aron Snær Íslandsmeistari

Hulda Clara Íslandsmeistari

Golfklúbbur Reykjavíkur vann tvöfaldan sigur á Íslandsmóti Golfklúbba sem leikið var í júlí. Mótið var leikið á Korpúlfstaðavelli og Hlíðavelli í Mosfellsbæ.

Golfklúbbur Reykjavíkur sigraði tvöfalt á Íslandsmóti Golfklúbba

Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur vann það einstaka afrek á árinu að leika til úrslita á Opna breska áhugamannamótinu. Þar lék hún gegn skosku stúlkunni Louise Duncan sem með sigrinum vann sér inn þátttökurétt á Opna breska móti atvinnukvenna þar sem hún lét heldur betur að sér kveða. Risastórt afrek hjá Jóhönnu Leu Lúðvíksdóttur.

Jóhanna Lea leikur til úrslita á Opna breska 

Louise Duncan lætur til sín taka á Opna breska

Atvinnukylfingarnir okkar áttu ágætu gengi að fagna á árinu. Guðrún Brá Björgvinsdóttir hélt þátttökurétti sínum á Evrópumótaröð kvenna örugglega en hún endaði í 75. sæti stigalista mótaraðarinnar. Hún lék í 16 mótum og komst í gegnum niðurskurðinn í 12 þeirra. Hennar besti árangur á árinu kom í júlí þegar hún endaði í 12. sæti á Aramco Team series London mótinu.

Frábært hjá Guðrúnu Brá í London

Guðrún Brá gerir upp tímabilið

Haraldur Franklín Magnus og Guðmundur Ágúst Kristjánsson héldu báðir þátttökurétti sínum á Áskorendamótaröð Evrópu og voru báðir í harðri baráttu um að komast inn á lokamótið þar sem efstu kylfingarnir kepptu um laus sæti á uppfærðri útgáfu Evrópumótaraðarinnar, DP World Tour.

Færa má rök fyrir því að Haraldur hafi aðeins verið einu höggi frá því að komast inn á lokamótið. Auk þeirra léku Andri Þór Björnsson og Bjarki Pétursson á mótaröðinni. Haraldur endaði í 48. sæti stigalistans en 45 efstu komust á lokamótið. Hans besti árangur var í Hollandi þegar hann komst í bráðabana um sigurinn en þurfti að lokum að sætta sig við 2. sætið ásamt öðrum. Guðmundur endaði í 80. sæti, Andri í 200. sæti og Bjarki í næsta sæti þar á eftir.

Frábært mót hjá Haraldi í Hollandi

Haraldur Franklín og Guðrún Brá Björgvinsdóttir voru í árslok kjörin kylfingar ársins af Golfsambandi íslands.

Guðrún Brá og Haraldur kylfingar ársins

Á árinu féll frá einn mesti meistari íslenskrar golfsögu Björgvin Þorsteinsson eftir langa baráttu við krabbamein. Björgvin varð 6 sinnum Íslandsmeistari í golfi á sínum ferli. Að auki vann hann fjölda Íslandsmeistaratitla í öldungaflokkum, þann síðasta í Vestmannaeyjum síðsumars skömmu fyrir andlát sitt. Blessuð sé minning hans.

Björgvin Þorsteinsson látinn