Fréttir

Tekst Harrington að sigra á sínu fyrsta móti í tvö ár?
Padraig Harrington
Laugardagur 15. september 2018 kl. 23:21

Tekst Harrington að sigra á sínu fyrsta móti í tvö ár?

Padraig Harrington hefur mátt muna fífil sinn fegri en á síðustu 10 árum hefur hann aðeins náð að sigra á einu móti og kom sá sigur á Portugal Masters mótinu árið 2016. Það gæti aftur á móti orðið breyting á því á morgun en fyrir lokahringinn á KLM Open mótinu á Evrópumótaröðinni er hann aðeins þremur höggum á eftir Chris Wood sem er í forystu.

Undanfarið hefur Harrington unnið mikið í sínum leik og hefur talað mikið um það hversu langt hann sé farinn að slá eftir breytingar í sveiflunni. Hann hefur einnig verið ofarlega í nokkrum mótum það sem af er ári og endaði hann til að mynda í öðru sæti á D+D Real Czech Masters mótinu fyrr í sumar.

Mikil spenna er á toppnum á KLM Open en átta kylfingar eru fjórum höggum á eftir Wood eða minna. Það ræðst seinni partinn á morgun hvort Harrington nái að sigra á sínu fyrsta móti í tvö ár.