Fréttir

Thomas í forystu fyrir lokahringinn á Heimsmótinu í Mexíkó
Justin Thomas.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 22. febrúar 2020 kl. 23:14

Thomas í forystu fyrir lokahringinn á Heimsmótinu í Mexíkó

Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas fer með eins höggs forystu inn í lokahringinn á Heimsmótinu í Mexíkó sem fer fram um þessar mundir. Thomas er á 15 höggum undir pari eftir þrjá hringi en hann lék á 6 höggum undir pari í dag.

Thomas er einu höggi á undan þeim Erik van Rooyen og Patrick Reed fyrir lokahringinn en þeir eru báðir á 14 höggum undir pari.

Thomas hefur áður komist nálægt sigri á mótinu en hann tapaði meðal annars gegn Phil Mickelson í bráðabana árið 2018.

Jon Rahm, Rory McIlroy og Bryson DeChambeau eru jafnir í 4. sæti á 11 höggum undir pari. Rahm gerði sér lítið fyrir og sló vallarmetið á þriðja keppnisdegi þegar hann lék á 10 höggum undir pari. Hápunktur hringsins kom á 17. holu þegar Spánverjinn ungi fór holu í höggi.

Staða efstu manna:

1. Justin Thomas, -15
2. Erik Van Rooyen, -14
2. Patrick Reed, -14
4. Jon Rahm, -11
4. Rory McIlroy, -11
4. Bryson DeChambeau, -11

Staðan í mótinu.