Fréttir

Þriðji yngsti sigurvegarinn í sögu Evrópumótaraðar karla
Rasmus Hojgaard.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 8. desember 2019 kl. 14:30

Þriðji yngsti sigurvegarinn í sögu Evrópumótaraðar karla

Daninn Rasmus Hojgaard sigraði í dag á AfrAsia Bank Mauritius Open mótinu sem fór fram á Evrópumótaröð karla í golfi.

Með sigrinum varð Rasmus þriðji yngsti sigurvegarinn í sögu Evrópumótaraðarinnar en hann er fæddur 12. mars 2001 og verður því ekki 19 ára fyrr en á næsta ári.

Yngsti sigurvegarinn í sögu mótaraðarinnar er Ítalinn Matteo Manassero sem sigraði á Castello Masters þegar hann var einungis 17 ára og 188 daga gamall. Danny Lee er næst yngsti sigurvegarinn í sögu mótaraðarinnar þegar hann sigraði á Johnnie Walker Classic 2009, þá 18 ára gamall.

Hojgaard tryggði sér þátttökurétt á Evrópumótaröð karla fyrr í haust þegar hann endaði á meðal 28 efstu á lokaúrtökumótinu sem haldið var á Lumine golfsvæðinu á Spáni.