Fréttir

Þrípúttin kostuðu mig sigurinn
Bryson DeChambeau.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 26. febrúar 2020 kl. 22:38

Þrípúttin kostuðu mig sigurinn

Bryson DeChambeau endaði í öðru sæti á Heimsmótinu í Mexíkó sem fór fram um helgina á Heimsmótaröðinni í golfi.

DeChambeau var í forystu þegar nokkrar holur voru eftir en þrípútt á 17. holu og frábær endasprettur Patrick Reed komu í veg fyrir sigur hjá honum.

Eftir lokahringinn var DeChambeau ekki lengi að finna ástæðuna fyrir því að hann náði ekki að vinna mótið.

„Undanfarnar tvær vikur hef ég komið mér í baráttu um sigur og ég er að dræva vel, járnahöggin eru að verða betri,“ sagði DeChambeau.

„Ég missti nokkur högg á lokakaflanum og það eru nokkrar ástæður fyrir því. Því miður gerðist þetta á 17. holu í dag. Ég sló gott högg sem fór upp í vindinn og rúllaði niður hallann í flötinni. Þess vegna átti ég langt pútt eftir. 

Því miður var hraðinn [á flötunum] ekki góður hjá mér í dag, ég þrípúttaði tvisvar í dag og það kostaði mig sigurinn. Ef ég hefði ekki þrípúttað hefði ég unnið. 

Ég verð að líta á þetta sem jákvæðan hlut og ég hlakka til Arnold Palmer mótsins.“