Fréttir

Þrír íslenskir kylfingar hófu leik á Opna breska áhugamannamóti pilta
Sigurður Bjarki Blumenstein. Mynd: Björgvin Franz Björgvinsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 13. ágúst 2019 kl. 17:55

Þrír íslenskir kylfingar hófu leik á Opna breska áhugamannamóti pilta

Dagbjartur Sigurbrandsson, Kristófer Karl Karlsson og Sigurður Bjarki Blumenstein hófu í dag leik á Opna breska áhugamannamótinu sem fer fram á Saunton golfvellinum í Englandi.

Fyrrum sigurvegarar í mótinu eru kylfingar á borð við Sir Michael Bonallack, José María Olazábal, Sergio Garcia, Matthew Fitzpatrick, Adrián Otaegui, Tom Lewis and David Howell.

Sigurður Bjarki lék best af íslenska hópnum en hann lék á höggi yfir pari eða 72 höggum. Sigurður byrjaði vel, fékk tvo fugla á fyrstu tveimur holunum og lék fyrri níu á höggi undir pari. Á seinni níu fékk hann svo fjóra skolla og lauk leik á höggi yfir pari.

Dagbjartur, sem var um helgina krýndur stigameistari á Mótaröð þeirra bestu, lék á 73 höggum eða tveimur höggum yfir pari. Kristófer Karl rekur svo restina af hópnum en hann kom inn á 5 höggum yfir pari.

Annar hringur mótsins fer fram á morgun og komast þá 64 efstu kylfingarnir áfram í holukeppni um sigurinn. 

Frakkinn Tom Gueant er efstur í mótinu á 8 höggum undir pari.

Staða íslensku kylfinganna:

67. sæti: Sigurður Bjarki Blumenstein, +1
94. sæti: Dagbjartur Sigurbrandsson, +2
169. sæti: Kristófer Karl Karlsson, +5

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.