Fréttir

Myndband: Tiger vaknar klukkan eitt á næturnar til að undirbúa sig fyrir Opna mótið
Tiger Woods
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 9. júlí 2019 kl. 09:00

Myndband: Tiger vaknar klukkan eitt á næturnar til að undirbúa sig fyrir Opna mótið

Tiger Woods undirbýr sig nú af fullum krafti fyrir Opna mótið sem fram fer dagana 18. til 21. júlí. Mótið fer fram á Royal Portrush á Norður-Írlandi en Tiger er enn staddur á austurströnd Bandaríkjanna og er því fimm klukkustunda tímamismunur.

Tiger ætlar þó ekki að láta tímamismuninn koma sér úr jafnvægi þegar hann mætir loks til Norður-Írlands og vaknar hann því þessa dagana klukkan eitt á næturnar því þá er klukkan orðin 6 um morgun á mótsstað. 

Í myndbandi sem birt var á Instagram síðu Nike segir Tiger að lykillinn að því að ná árangri sé að byrja daginn snemma. „Ef þú vilt ná árangri, ef þú vilt verða betri, ef þú vilt vinna, ef þú vilt ná markmiðum þínum, þá byrjar það allt með því að vakna snemma á morgnana. Eigið góðan dag!"

Þar sem Tiger hefur unnið 15 risamót er erfitt að draga orð hans í efa. En tíminn mun leiða í ljós hvort þessi stífi undirbúningur hans muni skila honum 16. risatitlinum.