Fréttir

Tilmæli um að loka golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu vegna C-19
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 8. október 2020 kl. 23:50

Tilmæli um að loka golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu vegna C-19

Íþróttasamband Íslands, ÍSÍ hefur farið fram á að golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu verði lokað fram til 19. október. Um er að ræða golfvelli í Reykjavík, Kópavogi, Garðbæ, Hafnarfirði, Álftanesi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Mosfellsdal og á Kjalarnesi.

Í bréfi framkvæmdastjóra GSÍ til golfklúbbanna segir að þessi ákvörðun sé tekin í ljósi þess að smitum vegna Covid-19 hafi fjölgað verulega á höfuðborgarsvæðinu á síðustu dögum og líkur á veldisvextri smita í faraldrinum hafi aukist.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti á fundi 8. október að beina því til íþróttahreyfingarinnar á höfuðborgarsvæðinu að fara að þessum tilmælum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og er golfiðkun þar með talin.

„Það er einlæg von GSÍ að golfklúbbarnir á höfuðborgarsvæðinu hafi skilning á þessum tilmælum og bregðist við þeim með lokun vallanna fram til 19. október,“ segir að lokum í bréfinu sem er undirritað af Brynjari Geirssyni, framkvæmdastjóra GSÍ.

Sjá má umræðu á Facebooksíðu Golfklúbbs Suðurnesja að kylfingar af höfuðborgarsvæðiniu hafa skráð sig á teig á Hólmsvelli í Leiru hjá Golfklúbbi Suðurnesja á laugardag. Ekki eru allir félagsmenn í GS sáttir við það. Þá mun Golfklúbbur Sandgerðis hafa lokað á kylfinga af höfuðborgarsvæðinu. Sjá má að aðsókn á vellina utan höfuðborgarsvæðisins er þegar þetta er skrifað nokkuð mikil.