Fréttir

Tímabilinu lokið hjá Tiger Woods
Tiger Woods.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 19. ágúst 2019 kl. 11:10

Tímabilinu lokið hjá Tiger Woods

Annað mót FedEx úrslitakeppninnar á PGA mótaröðinni kláraðist í gær og var það Justin Thomas sem stóð uppi sem sigurvegari. Nú er aðeins eitt mót eftir á tímabilinu, Tour Championship mótið, og hefst það á fimmtudaginn. Aðeins 30 efstu kylfingar á FedEx listanum eftir BMW Championship mótið komast inn á það mót og er því ljóst að tímabilið er búið hjá ansi mörgum kylfingum.

Einn þeirra er Tiger Woods. Þrátt fyrir að hafa unnið sitt fyrsta risamót í næstum 10 ár á þá er Woods aðeins í 42 sæti stigalistans og því 12 sætum frá því að komast inn á lokamótið.

Það má segja að tímabilið hjá Woods hafi verið mikil vonbrigði eftir sigurinn á Masters mótinu í byrjun apríl. Í þeim sex mótum sem hann lék í eftir sigurinn þá komst hann ekki í gegnum niðurskurðinn tvisvar og einu þurfti hann að draga sig úr leik. Besti árangurinn kom á Memorial mótinu en þar hafnaði hann í níunda sæti ásamt öðrum.

Woods hefur þó staðfest þátttökur sína í nýju móti hjá PGA mótaröðinni sem fram fer í Japan í lok október. Mótið heitir ZOZO Championship og verða þá margir af bestu kylfingum heims mættir til leiks.