Fréttir

Tvær brautir á Jaðarsvelli verða lengdar fyrir Íslandsmótið í höggleik
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 6. maí 2021 kl. 12:28

Tvær brautir á Jaðarsvelli verða lengdar fyrir Íslandsmótið í höggleik

Tvær brautir á Jaðarsvelli hjá Golfklúbbi Akureyrar verða lengdar fyrir Íslandsmótið í golfi sem fer fram í byrjun ágúst. Þetta kemur fram á fréttavefnum akureyri.net.

Brautirnar sem verða lengdar eru 3. brautin og 17. brautin. Af hvítum teigum mun 3. brautin lengjast um 28 metra á meðan 17. brautin verður lengd um 44 metra og verður sem fyrr lengsta braut vallarins. Af bláum teigum, sem er m.a. notaður af meistaraflokkskylfingum í kvennaflokki, lengist 17. brautin um 23 metra en blái teigurinn á 3. braut breytist ekki. Einnig á að lengja 7. braut vallarins af bláum teigum og verður hún þá 315 metrar að lengd í stað þess að vera 259 metrar af bláum í dag.

Engar breytingar verða gerðar á lengd áðurnefndra brautra af gulum eða rauðum teigum.

Bæði 3. brautin og 17. brautin eru par 5 holur. 3. brautin fer úr því að vera 442 metra að lengd af hvítum teigum í það að vera 470 metrar. 17. brautin fer úr því að vera 507 metrar í það að vera 551 metrar af hvítum teigum. Af bláum teigum fer 17. holan úr því að vera 445 metrar í það að vera 468 metrar. 

Vinna við endurhönnun og uppbyggingu Jaðarsvallar hófst 2004. Lokið er við að endurgera allar flatir og alla teiga og er lenging brautanna liður í áframhaldandi þróun vallarins.

„Þetta hefur því lengi staðið til, högg kylfinga hafa lengst nokkuð á síðustu árum, meðal annars vegna breytinga á búnaði,“ segir Steindór Kristinn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar, við Akureyri.net. „Ekki skemmir fyrir að klára þetta fyrir Íslandsmótið í sumar,“ segir hann.

Eftir breytinguna nálgast Jaðarsvöllur það að verða 6.100 metra langur, og þar með lengsti völlur landsins.

„Það var ekki markmiðið í sjálfu sér, við erum ekki að lengja völlinn lenginganna vegna. Við viljum fyrst og fremst að hver og ein hola verði sem best og skemmtilegust bæði fyrir keppendur og áhorfendur,“ segir Steindór.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig breytingarnar verða.


3. brautin fyrir breytingar. Mynd: GA


3. brautin eftir breytingar. Mynd: GA


17. brautin fyrir breytingar. Mynd: GA


17. brautin eftir breytingar. Mynd: GA