Fréttir

Tveir farið holu í höggi í Leirdalnum það sem af er sumri
T.v. Sigurður Kristinn Egilsson. T.h. Róbert Leó Arnórsson.
Miðvikudagur 8. maí 2019 kl. 15:59

Tveir farið holu í höggi í Leirdalnum það sem af er sumri

Kylfingar í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar koma greinilega vel undan vetri en nú þegar hafa tveir kylfingar í klúbbnum farið holu í höggi á Leirdalsvelli.

Hinn ungi og efnilegi Róbert Leó Arnórsson var fyrri til en hann fór á dögunum holu í höggi á 17. holu vallarins þegar hann notaði 9 járn af 112 metra færi. Á heimasíðu GKG kemur fram að bolti Róberts hafi skoppað einu sinni og farið svo beint ofan í holu.

Á þriðjudaginn fór svo Sigurður Kristinn Egilsson, gjaldkeri klúbbsins, holu í höggi á 13. holunni sem spilaðist 139 metra löng. Sigurður valdi á milli þess að slá með 8 járni eða 7 járni á teignum en valdi að lokum 7 járnið og sagði við meðspilara sína að hann nennti ekki að vera „enn eitt skiptið of stuttur á brautinni.“ Nánar er hægt að lesa um draumahöggið hans hér.

Ísak Jasonarson
[email protected]