Hellishólar
Hellishólar

Fréttir

Úrslitaleikirnir klárir í Íslandsmóti golfklúbba 18 ára og yngri
Dagbjartur Sigurbrandsson leikur til úrslita ásamt félögum sínum í Golfklúbbi Reykjavíkur.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 26. júní 2020 kl. 23:55

Úrslitaleikirnir klárir í Íslandsmóti golfklúbba 18 ára og yngri

Íslandsmót golfklúbba hjá yngri kynslóðinni heldur áfram en flokkur 15 ára og yngri leikur á Garðavelli á Akranesi á meðan flokkur 18 ára og yngri leikur á Strandarvelli hjá Golfklúbbnum Hellu. Í flokki 18 ára og yngri eru úrslitaleikirnir klárir en hjá yngri flokknum ræðst á morgun hvaða sveitir mætast í úrslitum.

Það verða sveitir Golfklúbbs Reykjavíkur (A) og Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (A) sem mætast í úrslitunum. Um þriðja sætið leika sveitir Golfklúbbs Akureyrar og Golfklúbbsins Keilis.

Hjá stelpum 18 ára og yngri verður síðasta umferðin á morgun en eftir tvær umferðir eru sveit Golfklúbbs Reykjavíkur með fullt hús stiga. Með sigri á morgun á móti sveit Golfklúbbs Mosfellsbæjar mun GR tryggja sér sigurinn.

Öll úrslit og nánari upplýsingar um mótið má nálgast hérna.

Á Akranesi á enn eftir að leika eina umferð í riðlakeppninni og fer sú umferð fram á morgun. Að loknum tveimur umferðum eru sveitir Golfklúbbs Akureyrar (A) og sveit Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (A) með fullt hús stiga í A-riðli. Þær sveitir mætast á morgun og leikur sú sveit til úrslita sem vinnur þann leik. Í B-riðli er sveit Golfklúbbsins Keilis - Hraunkot með fullt hús stiga. Þeir mæta sveit Golfklúbbs Reykjavíkur - Korpa á morgun og kemst það lið í úrslit sem vinnur leikinn.

Hjá stelpunum er sveit Golfklúbbsins Reykjavíkur - Korpa með einn vinning eftir eina umferð ásamt Golfklúbbinum Keili í A-riðli. Keilissveitin situr þó hjá á morgun á meðan GR mætir sveit GSS/GHD og ræðst þá hvaða sveit leikur til úrslita. Í B-riðli hafa sveitir Golfklúbbs Mosfellsbæjar -A og Golfklúbbs Akureyrar unnið einn leik hvor. Þær sveitir mætast á morgun í leik um hvor leikur til úrslita.

Öll úrslit og nánari upplýsingar um mótið má nálgast hérna.