Fréttir

Úrtökumótin: Komið á hreint hvar strákarnir leika á 2. stigi
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 16. október 2019 kl. 21:00

Úrtökumótin: Komið á hreint hvar strákarnir leika á 2. stigi

Síðastliðinn laugardag lauk síðustu tveimur mótunum sem tilheyrðu 1. stigi úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröð karla. Eins og áður hefur komið fram verða fimm kylfingar á meðal keppenda á 2. stiginu en það eru þeir Andri Þór Björnsson, Bjarki Pétursson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Haraldur Franklín Magnús og Rúnar Arnórsson.

Leikið er á fjórum golfvöllum og eru þeir allir staðsettir á Spáni. Vellirnir sem um ræðir eru þeir Alenda Golf, Club de Golf Bonmont, Deserts Spring og Las Colinas Golf & Country Club. 

Þeir Andri Þór, Guðmundur Ágúst og Rúnar munu allir leika á Desert Springs vellinum. Guðmundur tryggði sig inn á 2. stigið með góðum árangri á Nordic Golf mótaröðinni í ár en bæði Andri og Rúnar komust inn á 2. stigið með góðri spilamennsku á 1. stiginu.

Bjarki mun leika á Club de Golf Bonmont en hann komst inn á 2. stigið með góðum árangri á 1. stiginu.

Að lokum mun Haraldur leik á Alenda Golf en hann lék frábært golf á 1. stiginu sem haldið var í Austurríki.

Öll mótinu á 2. stiginu fara fram dagana 7.-10. nóvember en takist okkar mönnum að komast áfram bíður þeirra sex hringja mót dagana 15.-20. nóvember á Lumine golfsvæðinu á Spáni.


Andri Þór Björnsson. Mynd: [email protected]


Bjarki Pétursson.


Haraldur Franklín Magnús.


Rúnar Arnórsson.