Fréttir

Úrtökumótin: Ólafía og Valdís báðar undir pari
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 17. október 2019 kl. 21:45

Úrtökumótin: Ólafía og Valdís báðar undir pari

Þær Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir luku í dag leik á 2. stigi úrtökumóts fyrir LPGA mótaröðina. Þær léku báðar á höggi undir pari, sem var jafnfram þeirra besti hringur í mótinu, en það dugði því miður ekki til að komast á lokastigið. Þær léku báðar á Panther vellinum í dag en mótið var leikið á tveimur völlum.

Ólafía hóf leik á 10. holu í dag og byrjaði hún daginn vel. Hún var komin á tvö högg undir par eftir þrjár holur. Næstu næstu 13 holur lék hún á pari, þar sem hún fékk einn fugl og einn skolla. Einn skolla á næst síðustu holunni gerði það að verkum að hún endaði daginn á 71 höggi, eða einu höggi undir pari. Hringina fjóra lék Ólafía á samtals fjórum höggum yfir pari og varð hún jöfn í 97. sæti.

Valdís byrjaði á fyrstu holu og byrjaði hún daginn á fugli. Hún tapaði höggi á fimmtu holunni en vann það til baka og gott betur með tveimur fuglum á holum átta og 11. Skolli á lokaholu dagsins þýddi að hún lék einnig á 71 höggi, eða einu höggi undir pari. Valdís endaði mótið á átta höggum yfir pari og varð jöfn í 134. sæti.

Þær stelpur sem enduðu á samtals fjórum höggum undir pari og betur komust áfram. Lokastöðu mótsins má nálgast hérna.


Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.