Fréttir

Úrtökumótin: Ólafía og Valdís bættu sig báðar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 16. október 2019 kl. 20:10

Úrtökumótin: Ólafía og Valdís bættu sig báðar

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir áttu sinn besta hring í dag á þriðja degi 2. stigs úrtökumóts fyrir LPGA mótaröðina. Þær eru engu að síður í erfiðri stöðu fyrir lokahringinn sem verður leikinn á morgun.

Leikið er á tveimur völlum, Panther vellinum og Bobcat vellinum, og léku þær báðar á Bobcat vellinum í dag.

Ólafía hóf leik á fyrstu holu í dag og einkenndist hringurinn hennar af miklum stöðugleika. Hún fékk einn fugla á fyrri níu og restina pör og á síðari níu holunum fékk hún einn skolla og restina pör. Hringinn lék hún því á 72 höggum, eða pari vallar, og er hún jöfn í 120. sæti á samtals á fimm höggum yfir pari.

Valdís hóf einnig leik á fyrsta holu og byrjaði daginn á 10 pörum. Þá kom einn fugl en hún fékk svo þrjá skolla á síðustu sjö holunum. Hún endaði því daginn á 74 höggum, eða tveimur höggum yfir pari, og er hún jöfn í 153. sæti á níu höggum yfir pari.

Eftir daginn á morgun verður ljóst hvaða 30 kylfingar komast á lokastigið og eins og staðan er núna er það þær sem eru samtals á fjórum höggum undir pari sem komast áfram. Hérna má sjá stöðuna í mótinu.


Valdís Þóra Jónsdóttir.