Fréttir

Valdís: Kemst líklega inn í flest mót á næsta ári
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 10. desember 2019 kl. 08:00

Valdís: Kemst líklega inn í flest mót á næsta ári

Valdís Þóra Jónsdóttir GL lék um síðustu helgi í síðasta móti ársins á Evrópumótaröð kvenna sem fór fram í Keníu.

Valdís endaði þar í 50. sæti og endaði þar með í 71. sæti á stigalista mótaraðarinnar. Fyrir vikið náði hún ekki að halda fullum þátttökurétti þar sem hún hefði þurft að enda í topp-70. Niðurstaðan svekkjandi fyrir Valdísi en hún gerði árið upp á Facebook síðu sinni á mánudaginn.

„Þá er tímabilinu 2019 lokið hjá mér. Ekki alveg árangurinn sem ég vildi sjá á þessu ári því miður. Erfið meiðsli settu vissulega smá strik í reikninginn og tóku vel á líkamlegt og andlegt ástand en hins vegar gott að vita hvað sé í gangi og hvernig sé best að vinna á því.

Ég endaði í 71. sæti en topp-70 héldu fullu korti fyrir næsta ár. Ansi svekkjandi að missa af fullu korti með einu sæti og getur maður séð högg á öllum hringjunum í öllum mótunum sem ég hefði átt að geta framkvæmt betur en það þýðir víst lítið að hugsa svoleiðis.“

Líkt og Kylfingur greindi frá fyrr í mánuðinum eru breytingar framundan á LET mótaröðinni sem fer í samstarf við sterkustu mótaröð heims, LPGA mótaröðina. Við þessar breytingar segir Valdís að framundan séu fleiri mót á mótaröðinni.

„Hins vegar eru góðu fréttirnar þær að ég mun mjög líklega komast inn í flest mót á næsta ári þrátt fyrir þessa niðurstöðu. Evróputúr kvenna er að taka miklum breytingum á næsta ári og verða fleiri mót heldur en hafa verið síðustu ár og það er jákvætt. Ég mun ræða við mitt teymi á næstu dögum hvað sé besta leiðin fyrir mig á næsta ári og því ekkert stress.“