Fréttir

Valdís verður með takmarkaðan þátttökurétt
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 8. desember 2019 kl. 16:38

Valdís verður með takmarkaðan þátttökurétt

Valdís Þóra Jónsdóttir GL lék í dag lokahringinn á lokamóti tímabilsins sem fram fór í Kenía á Evrópumótaröð kvenna. Valdís endaði lokamótið í 50. sæti og komst þar með ekki í topp-70 á stigalistanum til þess að halda fullum keppnisrétti á mótaröð þeirra bestu í Evrópu.

Valdís endaði raunar grátlega nálægt því en hún endaði í 71. sæti, tæpum fjórum stigum á eftir Lejan Lewthwaite sem endaði í 70. sæti.

Þjálfari Valdísar, Hlynur Geir Hjartarson, staðfesti það í samtali við blaðamann Kylfings að Valdís yrði þó með takmarkaðan þátttökurétt á næsta tímabili. Hún getur svo farið í úrtökumót fyrir mótaröðina í janúar til þess að öðlast aftur fullan keppnisrétt.

Alls tók Valdís þátt í 16 mótum á tímabilinu og var meðalskor hennar 74,31 högg. Bestum árangri náði Valdís á Women's NSW Open þegar hún endaði í 5. sæti en fyrir utan það mót náði hún ekki að enda nógu oft meðal efstu kvenna til að halda keppnisrétti sínum á mótaröðinni.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna á stigalista kvenna á Evrópumótaröðinni.