Fréttir

Video: Þegar Seve vann OPNA mótið 1984 í St. Andrews
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 12. apríl 2020 kl. 10:53

Video: Þegar Seve vann OPNA mótið 1984 í St. Andrews

Einn besti sem og litríkasti kylfingur sögunnar er Spánverjinn Severano Ballesteros. Hann vann fimm risatitla, þrjá á OPNA mótinu og tvisvar sinnum klæddist hann græna jakkanum eftir sigur á Masters. Seve hefði átt 63 ára afmæli 9. apríl.

Seve er þökkuð uppgangur golfs í Evrópu en hann var í hópi leikmanna sem voru í forystu þegar Ryder bikarum var breytt í keppni milli Bandaríkjanna og úrvalsliðs kylfinga frá Evrópu. Hann náði frábærum árangri sem leikmaður og síðan sem fyrirliði Ryderliðs Evrópum sem og sem kylfingur á bestu mótaröðum heims. 

Seve kom fyrst fram á sjónarsviðið í atvinnugolfi þegar hann háði harða baráttu við Bandaríkjamanninn Johnny Miller á OPNA mótinu 1976 en endaði annar. Þremur árum síðar vann hann sinn fyrsta titil á OPNA mótinu og bætti síðan tveimur við 1984 og 1988. Í tilefni af afmælisdegi þessa magnaða kylfings gerðu forsvarsmenn OPNA mótsins skoðanakönnun um hvaða mót fólk vildi sjá af þeim mótum sem Seve vann og 1984 varð niðurstaðan. Þar sigraði hann eftir frábæra og skemmtilega keppni við Tom Watson sem þá hafði fimm OPNA(r) silfurkönnur í sínu safni. Á þessum tíma voru trékylfur úr tré! Eins og sjá má á í þessari samantekt frá mótinu sem haldið var á Gamla vellinum í St. Andrews. Kylfurhausar litlir og eitthvað sem flestir kylfingar í dag kannast ekki við nema þeir sem eru komnir á miðjan aldur.

Það er margt áhugavert og skemmtilegt í sögu OPNA mótsins. Í þessu móti hefði Tom Watson jafnað met Harry's Vardon með sex sigrum en Watson hafði unnið OPNA mótið tvö ár á undan og var í forystu fyrir lokahringinn og því í lokaráshópi. Með honum í þeim ráshópi var Ástralinn Ian Baker Finch en hann vann svo mótið árið 1991. Í næst síðasta ráshópi í mótinu 1984 voru Seve og vinur hans Bernhard Langer frá Þýskalandi. Þarna var hann í næst síðasta ráshópi en náði reyndar aldrei að vinna OPNA mótið. Hann vann hins vegar Masters tvisvar, meðal annars árið eftir. Langer vann græna jakkann aftur 1993 og hefur verið ein af sigursælustu kylfingum heims, og enginn hefur náð betri árangri á mótaröð eldri kylfinga í Bandaríkjunum.