Fréttir

Vilja fækka GSÍ kortum
9. holan á Brautarholtsvelli.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 16. ágúst 2019 kl. 17:43

Vilja fækka GSÍ kortum

Golfklúbbur Brautarholts leggur til að útgáfu GSÍ korta verði hætt eða takmörkuð verulega. Þetta kemur fram á Facebook síðu klúbbsins en stutt færsla um málið birtist í dag.

Þar er því haldið fram að Golfsamband Íslands gefi út tæplega 1.300 GSÍ kort á árinu en með kortinu geta notendur þess spilað golfhring hvar sem er á landinu fyrir 1.500 krónur og boðið einum gesti með sér.

Að sögn klúbbsins er þetta verð 40% undir kostnaðarverði og hafa þrívegis í sumar aðilar komið með tvö kort í Brautarholtið.

„Okkur þykir það vanvirðing við golfið og rekstraraðila golfvalla að verðleggja golfhringi þetta lágt og að veita forréttindahópi slík ofurkjör.“

Pistilinn má í heild sinni lesa hér fyrir neðan. 

„Golfklúbbur Brautarholts leggur til að útgafa svokallaðra GSÍ korta verði hætt eða þau takmörkuð verulega.

GSÍ gefur út tæplega 1300 GSÍ kort, handhafi þeirra +gestur greiða kr. 1.500 fyrir golfhring. Þetta verð er sennilega undir 40% af kostnaðarverði.

7% meðlima golfklúbba, 16 ára og eldri á suðvesturhorninu eru því með GSÍ kort. Flesir sem koma með slík kort bjóði með sér gesti. Það eru því nálægt 14% meðlima golfklúbba þar sem njóta þessara kjara.

Þrívegis í sumar komu til okkar aðilar sem eru með 2 kort.

Okkur þykir það vanvirðing við golfið og rekstraraðila golfvalla að verðleggja golfhringi þetta lágt og að veita forréttindahópi slík ofurkjör.“