Fréttir

Von á erfiðum aðstæðum fyrstu daga Opna mótsins
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 17. júlí 2019 kl. 22:41

Von á erfiðum aðstæðum fyrstu daga Opna mótsins

Opna mótið hefst á morgun á Royal Portrush vellinum í Norður-Írlandi. Þetta verður í 148. skiptið sem mótið er haldið en eins og flestir vita er mótið eitt af risamótunum fjórum.

Erfiðar aðstæður hafa verið síðustu tvo daga þar sem miklar rigningar hafa verið og mikið rok. Menn hafa því þurft að glíma við það á æfingahringjunum en líklegt er að kylfingar þurfi að glíma við svipaðar aðstæður fyrstu tvo keppnisdagana.

Veðurfræðingar hafa spáð því að vindur geti farið upp í allt að 10 m/s fyrstu tvo keppnisdagana og ofan í það gæti gengið á með miklum rigningum.

Jon Rahm er einn af þeim kylfingum sem þykir hvað sigurstranglegastur sagði að þetta gæti orðið mikil barátta ef veðurspár gengu eftir.

„Þú verður bara að berjast þegar það fer að rigna. Það fer að koma vatn á kylfuhausinn og þá verður erfiðara að stjórna því hvert boltinn fer. Oftast kemur þetta í skorpum, það rignir í klukkutíma og svo er þurrt í hálftíma. Þannig ef þú nærð að halda þér á lífi gegnum erfiða partinn þá getur þú skilað inn góðum hring.“