Örninn Taylor
Örninn Taylor

Fréttir

Woods: Mikil vinna og þolinmæði
Tiger Woods.
Þriðjudagur 11. september 2018 kl. 19:39

Woods: Mikil vinna og þolinmæði

Tiger Woods lék lokahringinn á BMW Championship mótinu á 65 höggum eða fimm höggum undir pari og endaði í 6. sæti. Woods hefur leikið flott golf á tímabilinu og er til alls líklegur fyrir lokamót tímabilsins sem fer fram á East Lake golfvellinum eftir tvær vikur.

Í viðtali eftir lokahring BMW Championship mótsins sagði Woods að árangur síðustu vikna kæmi í kjölfar mikillar vinnu.

„Mikil vinna. Mikil vinna og þolinmæði,“ sagði Woods. „Líkaminn hefur breyst mikið frá því að ég spilaði fyrst á mótaröðinni. Svo hef ég þurft að venjast nýjum kylfum þar sem sveiflan hefur breyst. Þetta hefur verið flott ár.“

Lokahringur mótsins fór fram á mánudegi en kylfingar komust ekki út á völl á sunnudeginum. Woods nýtti sunnudaginn vel.

„Ég tók tvær lyftingaræfingar og horfði á fótbolta. Ég var úthvíldur þegar við fórum af stað á mánudaginn og vissi að ég þyrfti að leika á svona 62 höggum til þess að eiga möguleika á sigri en ég held að það hefði ekki einu sinni verið nóg. Ég hefði mögulega þurft að leika á 61 höggi.“

Woods er spenntur fyrir næstu vikum en auk þess að leika á lokamóti FedEx keppninnar verður hann einnig með í Ryder bikarnum.

„Að komast í Ryder liðið og að komast á East Lake voru tvö af stóru markmiðunum sem ég setti mér í byrjun árs og eitthvað sem ég er mjög stoltur af. Ég fæ bæði að spila fyrir hönd Bandaríkjanna og spila sem einn af bestu kylfingum mótaraðarinnar.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is