Fréttir

Woods tjáir sig um breytingar á Augusta National
Tiger Woods hefur fjórum sinnum sigrað á Masters mótinu.
Laugardagur 9. febrúar 2019 kl. 13:12

Woods tjáir sig um breytingar á Augusta National

Tiger Woods segir að Augusta National hafi ekki verið það erfiður áður en völlurinn breyttist og lengdist en nú í ár var völlurinn enn og aftur lengdur.

Frá árinu 2002 hefur Augusta National breyst töluvert en búið er að bæta við trjám á nokkrum stöðum og þrengja og lengja brautir. Nýjasta breytingin er á 5. holu en hún verður lengd um tæplega 40 metra.

Woods, sem hefur sigrað á Masters mótinu fjórum sinnum, ræddi við TaylorMade á dögunum um breytingarnar.

„Þegar ég kom þangað fyrst voru engar glompur. Ég sló að gangbrautinni á 1. holu. Ég sló 9 járn inn á 2. holu, drævaði á flötina á þriðju.

Var með sandjárn á fimmtu, sandjárn á sjöundu og fjögur járn á 8. holu. Níunda var sandjárn, 11. hola var fleygjárn, 13. hola þrjú tré og fleygjárn. 14. hola var þrjú tré og sandjárn.

Fimmtánda holan var dræver og 8-járn og stundum dræver og fleygjárn. 17. holan var dræver og sandjárn og 18. holan var dræver sandjárn.“

“Þetta var ekki svo erfitt.“

Woods keppti fyrst á Masters mótinu árið 1995 þar sem hann endaði efstur áhugamanna. Ári seinna komst hann ekki í gegnum niðurskurðinn en árið 1997 sigraði hann í fyrsta skiptið.

Ísak Jasonarson
[email protected]