Fréttir

„Aldrei séð svona mikið vatn á golfvellinum“
Starfsmenn GV reyndu hvað þeir gátu til að losa vatn af flötunum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 7. ágúst 2022 kl. 17:25

„Aldrei séð svona mikið vatn á golfvellinum“

„Við höfum upplifað ýmislegt en aldrei svona mikið vatn á golfvellinum. Þetta er rosalegt,“ sagði Karl Haraldsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Vestmannaeyja þegar fjórða keppnisdegi var aflýst á Íslandsmótinu í golfi í Eyjum.

Keppni hófst kl. 6 að morgni fjórða dags og gekk vel að leika til kl. 10 en þá voru aðstæður orðnar þannig að ekki var talið leikhæft á vellinum. Stefnt var að því að hefja leik síðar um daginn en rigningin bara jókst og setti völlinn nánast á bólakafi. Stórar tjarnir mynduðust um allan völl og þrátt fyrir góðar tilraunir við að skafa vatnið af flötunum var ekki við neitt ráðið því svo mikið vatn var á brautunum. Því var ákveðið að slá fjórða daginn af. 

Þetta er í fyrsta skipti sem ekki hefur verið hægt að ljúka fjórum keppnisdögum á Íslandsmóti í golfi. 

Þessar myndir voru teknar um hálftíma áður en ákveðið var að flauta fjórða daginn af. 

Séð yfir þriðju brautina og 2. flötina.

Átjánda brautin var nánast öll á floti rétt áður en fjórðu umferðinni var aflýst.

Séð yfir hluta 13. brautar.

Þrettánda flötin.