Fréttir

„Kannski geng ég út“
Golfmót einhleypra fer í fyrsta sinn fram á Kiðjabergi 28. maí nk.
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
mánudaginn 16. maí 2022 kl. 11:46

„Kannski geng ég út“

Hrafnhildur Arnardóttir, hársnyrtir á Greiðunni, heldur golfmót einhleypra í fyrsta sinn.

Golfmót einhleypra fer fram á Kiðjabergi, laugardaginn 28. maí nk. Á mótinu verða leiknar 18 holur í punktakeppni með forgjöf þar sem hámarks forgjöf er 36. Mótið er eingöngu ætlað einhleypu fólki, 25 ára og eldra.

Það er Hrafnhildur Arnardóttir, hársnyrtimeistari á Greiðunni, sem hefur veg og vanda að mótinu. Hrafnhildur segir hugmyndina hafa kviknað út frá sinni eigin reynslu en sjálf hefur hún verið einhleyp í nokkur ár. Hún segir að henni hafi fundist vantað vettvang fyrir einhleypa til að hittast, sér í lagi þegar kemur að áhugamálum.

„Ég hef stundað golf sjálf í um fjögur ár og ég hef mikla trú á því að golfmót ætlað einhleypum sé eitthvað sem mörgum þykir vanta. Það eru alls konar hjóna- og paramót út um allar trissur og því ekki að bjóða þá upp á golfmót fyrir einhleypa og hver veit nema ég gangi út,“ segir Hrafnhildur og hlær.

Hrafnhildur Arnardóttir. Ljósmynd: Silla Páls

Vegleg verðlaun verða veitt á mótinu og súpa og brauð fylgja mótsgjaldi sem er 9.000 krónur. Hámarksfjöldi þátttakenda eru 36 dömur og 36 herrar. Skráning fer fram í gegnum tölvupóst á netfangið [email protected].

Hrafnhildur hvetur einhleypa að slá til.

„Hver veit nema ástin kvikni á mótinu,“ segir Hrafnhildur Arnardóttir að lokum.