Fréttir

„Mikilvægt fyrir okkur að byggja upp á eigin svæði“
Jaðarsvöllur Golfklúbbs Akureyrar
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 14. maí 2022 kl. 14:52

„Mikilvægt fyrir okkur að byggja upp á eigin svæði“

Steindór Kristinn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar, í léttu spjalli.

Jaðarsvöllur Golfklúbbs Akureyrar verður opnaður mánudaginn 16. maí nk. Völlurinn kemur vel undan vetri að sögn Steindórs Kristins Ragnarssonar framkvæmdastjóra GA, sem einnig er vallarstjóri.

„Völlurinn var fljótt auður af snjó og apríl var okkur hagstæður. Völlurinn er tilbúinn til opnunar á svipuðum tíma og á meðalári en gæði vallarins eru meiri en oft áður á þessum árstíma. Við höfum, eins og fyrri ár, unnið mikla vinnu í vetur við að fylgjast með og forðast klakamyndun. Snjómokstur og götun á klaka er eitthvað sem yfirleitt er þörf á í desember og janúar svo ekki hljótist skaði af. Þá gerðum við nokkra nýja fremri teiga í vetur og fórum í drenvinnu á brautum. Núna á vordögum liggur fyrir að setja vökvunarstúta á nokkrar forflatir og mun sú vinna svo halda áfram næsta árið,“ segir Steindór.

„Á morgun, sunnudag, er okkar árlegi vinnudagur. Þá munu félagar í GA hittast frá 10-13:30 á Jaðarsvelli og hjálpast að við að koma vellinum í sitt besta stand fyrir opnun. Við hvetjum að sjálfsögðu alla alla sem vettlingi geta valdið að koma og aðstoða okkur við það. Að vinnudeginum loknum verður okkar duglegu sjálfboðaliðum boðið upp á súpu og brauð auk þess sem heitt verður á könnunni. Við forsvarsmenn klúbbsins munum þá fara yfir áætlanir sumarsins og spjalla við fólkið. Eftir matinn gefst viðstöddum, að venju, færi á að leika völlinn sem opnar svo formlega fyrir aðra 16. maí nk.“ 

Hjá GA, er líkt og víðar, rekið metnaðarfullt unglinga- og afreksstarf, sem hefur sífellt stækkað og segir Steindór að inniaðstaðan sé sprungin.

„Heiðar Davíð Bragason, PGA golfkennari, hefur stýrt unglinga- og afreksstarfinu síðan 2018 með góðum árangri. Við hjá GA erum einkar lánsöm að hafa krækt í hann á sínum tíma. Í vetur settum við afrekshóp á laggirnar, sem sækir aukaæfingar hjá þjálfara ásamt sjúkraþjálfun og sálfræðiþjónustu sem vinnur með hugarfar íþróttafólks. Þá höfum við komið upp líkamsræktaraðstöðu fyrir okkar iðkendur en líkamsrækt er inni í æfingaáætlun okkar iðkenda.“

Sveit GA hafnaði í 3. sæti efstu deildar kvenna á Íslandsmóti golfklúbba 2021

„Á veturna er inniaðstaðan mikið notuð en þar erum við með þrjá TrackMan golfherma, svæði til að slá í net og púttflöt. Fjöldi iðkenda yfir vetrarmánuðina er orðinn slíkur að aðstaðan sem við höfum dugir okkur ekki lengur. Þá er aðstaðan ekki á okkar félagssvæði en þótt það sé nú ekki mjög langt að fara er það ákveðinn galli.“

Golfklúbbar víða um land hafa verið í mikilli uppbyggingu á undanförnum árum og margir klúbbar eru stórhuga. Golfklúbbur Akureyrar er með metnaðarfull framtíðaráform.

„Við viljum reisa viðbyggingu við golfskálann sem myndi hýsa inniaðstöðuna okkar. Þar kæmum við fyrir golfhermum og hefðum púttsvæði, allt á okkar félagssvæði. Með aðstöðu til golfiðkunar hér að Jaðri allan ársins hring fengi félagsstarfið að blómstra enn frekar og þannig gætum við styrkt inniviði klúbbsins til muna. Við höfum á síðustu árum fjölgað vel í klúbbnum, sem telur yfir 800 félagsmenn í dag og við stefnum á að félagatalið telji 1.000 manns innan 5 ára. Það er því mjög mikilvægt fyrir okkur að byggja upp á eigin svæði. Þá er skipulögð lóð fyrir hótelbyggingu hér að Jaðri. Lóðin er hér austan við 10. teiginn og ef bygging hótels verður að veruleika færist teigurinn aðeins sunnar en þar höfum við mikið pláss. Við höfum átt jákvæð samtöl við pólitíkina í bænum hvað áform okkar um uppbyggingu varðar.“

Hér gefur að líta kynningarmynd af fyrirhugaðri hótelbyggingu á Jaðri. Steindór Kristinn Ragnarsson er framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar.

Steindór segir bjartsýni ríkja fyrir sumarið og framtíðina innan Golfklúbbs Akureyrar.

„Við horfum til mikillar eftirvæntingar á sumarið og framtíðina. Við höfum fengið margar bókanir og stóru golfmótin okkar eru uppseld, bæði Arctic Open og Hjóna- og Parakeppni Golfskálans. Þá er Höldur Open einnig að verða uppselt. Við hvetjum kylfinga til að heimsækja Akureyri og Jaðarsvöll og hlökkum til að taka á móti ykkur í sumar,“ segir Steindór Kristinn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar og vallarstjóri á Jaðarsvelli að lokum.