Fréttir

„Þessar tvær erfiðu holur endurspegluðu ekki spilamennskuna“
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd: Tristan Jones/LET
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
sunnudaginn 15. maí 2022 kl. 01:25

„Þessar tvær erfiðu holur endurspegluðu ekki spilamennskuna“

Guðrún Brá gerir upp mótið í Bangkok

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK, náði sér ekki á strik á lokahring Aramco Team Series í Bangkok en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni. Guðrún Brá kom í hús á 79 höggum eða á 7 höggum yfir pari vallarins á Thai Country Club. Hún lék hringina þrjá á samtals 224 höggum (74-71-79) eða á 8 höggum yfir pari og hafnaði í 55.-57. sæti.

Þrátt fyrir niðurstöðuna lék okkar kona heilt yfir ágætlega á mótinu. Guðrún Brá fékk 9 fugla, 11 skolla og 32 pör en slæmt högg á 1. braut á lokahringnum varð til þess að hún fékk fjórfaldan skolla og svo tvöfaldan skolla á annarri braut í kjölfarið. Kylfingur ræddi við Guðrúnu Brá eftir mót.

„Þessar tvær erfiðu holur í dag endurspegluðu alls ekki spilamennsku mína á mótinu. Ég tek margt gott með mér héðan enda var spilamennskan heilt yfir góð á mótinu.“

Eftir upphafshöggið á 1. braut á lokahringnum sagðist Guðrún Brá hafa átt fáránlegt annað högg sem hafnaði ofan í vatni.

„Í kjölfarið átti ég ömurlegt vipp og toppaði svo sjálfa mig með þrípútti. Það tók mig smá stund að hrista þessar hrakningar af mér en ég var ánægð með frammistöðuna á seinustu 16 holunum í dag eftir þessa erfiðu byrjun.“

Evrópumótaröðin ferðast nú til Frakklands þar sem Jabra Ladies Open fer fram á Evian vellinum í austurhluta landsins. Guðrún Brá verður meðal þátttakenda á mótinu.

18. flötin á Thai Country Club í Bangkok. Ljósmynd: Tristan Jones/LET