Fréttir

„Við ætlum að leika okkur svolítið með landanum“
Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ.
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 18. maí 2022 kl. 13:18

„Við ætlum að leika okkur svolítið með landanum“

Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ, um afmælisárið og verkefnin framundan innan sambandsins.

Auglýsingaherferð undir slagorðunum „Golfið er núna“ og „Sláðu í gegn“, fyrirferðarmikið útbreiðsluverkefni á landsbyggðinni og golfmót í samstarfi við KPMG auk nýrra hlaðvarpsþátta er meðal þess sem Golfsamband Íslands mun gera í tilefni 80 ára afmælis sambandsins.

Golfsamband Íslands hélt kynningarfund í vikunni þar sem farið var yfir golfsumarið 2022 og það sem er á döfinni.

Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ, opnaði fundinn og tilkynnti um sögulegt ár framundan – þar sem að GSÍ fagnar 80 ára afmæli þann 14. ágúst á þessu ári, en golfsambandið er elsta sérsamband innan raða ÍSÍ. Hún greindi þá m.a. frá því að nýverið hafi verið gerður samstarfssamningur á milli BL og GSÍ. Þar með séu fimm fyrirtæki í „GSÍ fjölskyldunni“ – BL, Icelandair, KPMG, Íslandshótel og Stefnir. Forsetinn sagði m.a. að afmælisdagskrá sambandsins hafi hafist í vetur þegar Landsmót í golfhermum fór fram í byrjun ársins í fyrsta sinn en GKG var framkvæmdaraðili mótsins. Landsmótið í golfhermum var fyrsta slíka mótið sem sýnt hefur verið í sjónvarpi í beinni útsendingu.

Þá sagði Hulda, auglýsingaherferð í undirbúningi undir slagorðunum: „Golfið er núna“ og “Sláðu í gegn.” Þar verði lögð áhersla á að draga fram þá staðreynd að golfíþróttin henti öllum. Þá var sagt frá fyrirferðarmiklu útbreiðsluverkefni á landsbyggðinni en Golfdagar verða í landshlutunum í sumar í samstarfi með KPMG og PGA þar sem markmiðið er að kynna íþróttina fyrir heimafólki og hjálpa til við að byggja upp þekkingu á kennslu í heimabyggð. Fyrsti Golfdagurinn verður í Stykkishólmi, 26. maí nk. en tilgangurinn verður að varpa ljósi á umfang golfsins á Vesturlandi. Þá verða Opin hús hjá golfklúbbum landsins – þar sem ýmislegt verður í boði fyrir gesti. Klúbbarnir verða með þær hátíðir á ýmsum dagsetningum í sumar.

Nýir hlaðvarpsþættir fara fljótlega í loftið þar sem að ýmis málefni úr golfsamfélaginu verða til umfjöllunar og er þetta ný leið til að miðla upplýsingum úr innra starfi golfhreyfingarinnar.

Þá fá golfklúbbar landsins m.a. nýja GSÍ afmælisfána, ásamt kynningarbæklingi þar sem að lýðheilsu- og heilsuágóða golfleiks er gert hátt undir höfði – með áherslu á tengingu við bæjar– og sveitarfélög. Golfklúbbar landsins fá einnig aðstoð frá GSÍ við að skipuleggja einfaldar æfingar á leikjanámskeiðum fyrir börn og á kynningum fyrir nýliða í íþróttinni,“ sagði Hulda m.a. í kynningunni í dag.

Í afmælisvikunni sjálfri, dagana 4.–14. ágúst verður efnt til verðlaunaleiks þar sem almennir kylfingar geta tekið þátt með að skila inn skorkorti eða ljósmynd. Betur verður greint frá því síðar.

Útgáfa á blaði er fyrirhuguð í aðdraganda Íslandsmótsins í golfi og nýjar upplýsingasíður um Íslandsmótin á golf.is eru í vinnslu – en þar á að halda utan um sögu Íslandsmótanna, úrslit, myndir og ýmislegt annað.

Kylfingur ræddi við Huldu um afmælisárið og verkefnin framundan.