Golfklúbbur Kiðjabergs
Golfklúbbur Kiðjabergs

Golfvellir

Eagle Creek
Föstudagur 24. maí 2019 kl. 06:28

Eagle Creek

Eagle Creek golfvöllurinn í Orlando vinsæll meðal Íslendinga

Eagle Creek golfvöllurinn í Orlando er einn vinsælasti golfvöllurinn í þessari vinsælu og sólríku borg í Flórída og líka hjá Íslendingum. Fjöldi hringja á vellinum ár hvert nemur um 50 þúsund sem er ansi mikið. Hinn kunni kylfingur, Snorri Hjaltason, var meðal þeirra fyrstu sem eignaðist húseign við Eagle Creek og hefur síðan verið nokkurs konar sendiherra Íslendinga á staðnum.

Völlurinn var tekinn í notkun árið 2004 og Snorri festi kaup á húsi við golfvöllinn í ársbyrjun 2005. Snorri hefur alltaf verið með mikla golfdellu og hann var snemma mættur á nýlegan Eagle Creek völlinn sem hann segist hafa fallið fyrir strax í byrjun enda gríðarlega fjölbreyttur og skemmtilegur. Tveir kunnir golfarkitektar hönnuðu saman þennan völl, Bandaríkjamaðurinn Ron Garl og Englendingurinn Howard Swan en hann kom að hönnun Grafarholtsins á sínum tíma. Hönnunin er þannig amerísk-evrópsk, keppnisvöllur af bestu gerð. Eagle Creek hefur fengið nokkrar flottar útnefningar í vali á bestu golfvöllum Flórída. Golflink.com valdi til dæmis EC númer tvö í vali á bestu golfvöllum Flórída og setti hann í 27. sæti yfir bestu velli í Bandaríkjunum. Þá fékk völlurinn mjög góða dóma hjá bandaríska golftímaritinu Golf Digest í leit sinni að bestu golfsvæðunum eða „Best places to play“.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Eagle Creek er 6500 metrar á öftustu teigum og 300 metrum styttri á hvítum teigum. Á gulum teigum er hann 5800 metrar en sú lengd er vinsæl meðal flestra. Á vellinum eru fimm par 5 brautir, þar af tvær frábærar, 13. og síðan 18. brautin en hún er að margra mati ein fallegasta golfbraut í Flórída. Risastór tjörn liggur meðfram allri brautinni og hún klífur síðan brautina fyrir framan flötina. Það er afar sjaldgæft að slegið sé inn á flöt í tveimur höggum nema hjá þeim sem eru mjög högglangir. Snorri hlær þegar hann er spurður hvort hann hafi náð því og játaði því reyndar, og fékk auðvitað „örn“ eða „eagle“ á holunni sem hann segir að upphaflega hafi átt að vera löng par 4. Með breytingunni í par 5 varð brautin miklu skemmtilegri.

Snorri með Sam sem er einn af stjórnendum Eagle Creek.

Aðspurður um aðra uppáhaldsbraut á vellinum nefnir Snorri strax 14. brautina sem er par 4. Þar er margar glompur í „dræv“-lengd beggja megin brautarinnar en flötin liggur miklu neðrar en efri partur brautarinnar. Með löngu „drævi“ sé þó hægt að slá yfir glompurnar og þá lendir boltinn í brekku sem skilar honum jafnvel inn á flöt. Virkilega skemmtileg hola. Sautjánda og 8. hola sem eru báðar mjög flottar par 3. Snorri nefnir líka 4. brautina sem er par 5. Við, nokkrir Íslendingar sem lékum þarna nokkrum sinnum í byrjun nóvember vorum sammála þessu vali Snorra. Fjölbreytni brauta er mikil. Þær eru ágætlega breiðar og það hentar flestum Íslendingum vel. Flatir eru mjög góðar en bjóða oft upp á lúmskt brot. Verulega hraðar en taka vel á móti. Það er gaman að slá inn á slíkar flatir þar sem boltinn stoppar fljótt.

Við völllinn er mjög gott æfingasvæði, glæsilegt klúbbhús með veitingastöðum og bar. Þá er mjög fín golfverslun í klúbbhúsinu.

Við völlinn má sjá miklar byggingaframkvæmdir. Snorri segir aðal ástæðuna vera þá að fjölmargir sæki nú í þetta hverfi einna helst út af því að mikið sé um atvinnutækifæri í nágrenninu, m.a. þrjú sjúkrahús sem kalla á mikið starfsfólk. „Í Flórída vílar fólk sér ekki við að flytja á milli staða. Það vill búa eins nálægt vinnustaðnum sínum og hægt er.“

Í Eagle Creek eru á fjórða tug húseigna í eigu Íslendinga og hefur aukist ár frá ári. Völlurinn er einn vinsælasti í Orlando og Snorri Hjaltason hefur verið duglegur að kynna hann fyrir Íslendingum og er því nokkurs konar sendiherra á staðnum. Í raun félagi númer eitt. „Sókn Íslendinga á völlinn hefur aukist á hverju ári og þeir eru aufúsugestir hérna. Það er kannski ekkert skrýtið. Flestir Íslendingar taka allan pakkann eins og sagt er, þ.e. þeir kaupa sér veitingar eftir golfhring og þá hafa þeir líka verið góðir viðskiptavinir í golfversluninni sem er með þeim betri á golfvöllunum í Orlando. „Stjórnendur Eagle Creek eru afar ánægðir með heimsóknir Íslendinga og munu á árinu 2014 bjóða félögum í Icelandair Golfers golfklúbbnum sérstakt tilboðsverð á vallargjaldi.

Snorri hefur leikið með íslenska öldungalandsliðinu en hann dvelur dágóðan hluta af árinu í sólinni í Orlando. Kappinn er duglegur að stunda golfið og er með 4,7 í forgjöf en fór lægst í rúma tvo í forgjöf. Snorri fór fyrir nokkrum árum í golfskóla þar ytra í vikutíma og segist aldrei hafa lært jafn mikið í golfi á stuttum tíma. Hann hrundi niður í forgjöf og lærði margt í þessari frábæru íþrótt. „Það er frábært að spila golf í blíðunni hérna úti. Ég vil bara hvetja Íslendinga til að koma á Eagle Creek. Það verður tekið vel á móti þeim,“ sagði Snorri Hjaltason.

17. brautin er par 3 og sérlega falleg. Snorri fór holu í höggi þar í ársbyrjun.

Átjánda brautin er ein glæsilegasta golfholan í Orlando, par 5 þar sem vatnstorfæra spilar stór hlutverk.

Par 3 brautirnar á Eagle Creek eru skemmtilegar. Hér er Snorri á 8. holu en hún er nokkuð snúin.

Í Orlando eru fleiri glæsilegir golfvellir og margir þeirra í eigu sama aðila og á Eagle Creek. kylfingur.is fékk tækifæri til að leika nokkra þeirra, m.a. Orange County National, Celebration og Red Tail. Allt frábærir golfvellir.

Red Tail er virkilega glæsilegur golfvöllur og þess virði að keyra aðeins út úr miðju Orlando til þess að spila hann. Hér að ofan má sjá 2. braut og 10. braut, báðar glæsilegar.

9. brautin, par 5, á Red Tail er undir skoskum áhrifum, hólarnir gera skemmtilegan svip á brautina.

Átjánda brautin er ein sú erfiðasta í Orlando.

Átjánda séð frá klúbbhúsinu þar sem hægt er að tylla sér með drykk eftir hring.

Ventura völlurinn er einn vinsælasti völlurinn í Orlando.

Klúbbhúsið í Ventura er oft vel sótt af Íslendingum.

Glatbeittir Suðurnesjamenn í Ventura.

Celebration golfvöllurinn er einn af flottari völlum í Orlando.

Orange County National er gríðarlega flott golfsvæði, tveir 18 holu vellir og stærsta æfingasvæði í Flórída.

Útsendarar kylfings.is á Orange County vellinum.