Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 17. nóvember 2019 kl. 18:14

Andri: Nýtti færin ekki nógu vel

Andri Þór Björnsson GR lék í dag þriðja hringinn á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð karla á parinu og er því samtals á 2 höggum yfir pari í mótinu.

Andri lék á Lakes vellinum á Lumine svæðinu í dag og leikur á Hills vellinum á morgun.

Í viðtali við Kylfing sagði Andri að hann hefði verið að slá vel á þriðja hringnum en að hann hafi ekki verið að nýta færin alveg nógu vel.

Eftir fjóra hringi í mótinu verður skorið niður og halda þá 70 kylfingar áfram. Fyrir fjórða hringinn er Andri jafn í 121. sæti og þarf því á góðum hring að halda á morgun til þess að komast áfram. Andri ætlar þó ekki að skoða stöðuna fyrr en að hringnum loknum.

„Ég ætla bara að fara út á völl, gera mitt allra besta og skilja ekkert eftir. Síðan sjáum við bara hvað setur.“

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.