Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 18. nóvember 2019 kl. 21:48

Bjarki: Ég veit hvað ég þarf að bæta

Bjarki Pétursson GKB féll í dag úr leik á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð karla sem haldið er á Lumine golfsvæðinu á Spáni.

Bjarki lék fyrstu fjóra hringi mótsins samtals á 3 höggum yfir pari en hann var á höggi yfir pari á lokahringnum.

Í viðtali við Kylfing eftir lokahringinn sagði Bjarki að púttin hefðu svikið hann í mótinu og það hafi orðið honum að falli en hann horfir þó jákvæðum augum á mótið enda góð reynsla fyrir framhaldið.

„Ég tek rosalega mikið frá þessu. Ég veit hvað ég þarf að bæta til þess að ég þurfi ekki að vera í þessari stöðu sem ég er í í dag næst þegar við heyrumst hérna í Lumine þannig næstu vikur og mánuðir fara í að negla á þessa hluti þannig að þeir verði betri.“

Viðtal við Bjarka má sjá hér í meðfylgjandi myndbandi.