Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 17. mars 2023 kl. 17:29

Carton House á Írlandi stendur undir nafni

Carton house í Dublin í Írlandi er eitt af fjölmörgum skemmtilegum golfsvæðum sem Íslendingar eru nýlega farnir að sækja. Carton house er með þeim flottari með tveimur frábærum golfvöllum og mjög góðri hótelgistingu og veitingastöðum. Fimm stjörnu glans bíður gesta sem verða ekki fyrir vonbrigðum.

Carton house er ekki nema í um hálftíma akstursfjarlægð frá Dublinar flugvelli þannig að það bíður manni skemmtilegt golf strax eftir stutta flugferð frá Íslandi. GB ferðir hafa selt á Carton og hefur verið með vinsælli áfangastöðum hjá ferðaskrifstofunni. Þeir sem vilja skjótast í miðborg Dublinar verða ekki fyrir vonbrigðum því það er einnig stutt að fara þangað.

Eitthundrað og þrjátíu glompur er á Monty vellinum.

Monty og O’Meara vellir

Golfvellirnir tveir, Montgomery og O’Meara, eru ólíkir en báðir mjög skemmtilegir. Það segir sína sögu að Írska mótið á Evrópumótaröðinni var haldið á Monty vellinum árin 2005, 2006 og 2013 og þá var Heimsmeistaramót liða áhugamanna haldið þar 2018. Írska golfsambandið er einnig með aðsetur á þessu flotta golfsvæði. Þar er líka frábær æfingaaðstaða.

O’Meara völlurinn er svokallaður parkland völlur þar sem trjágróður og vötn spila stórt hlutverk. Hann er par 73 og byrjunin er þægileg en fyrsta holan er par 5 og svo tekur við par 3 braut. Brautir 14,15 og 16 eru par 3, 5 og 3. Vatnstorfærur trufla kylfinginn á öllum brautunum þegar slegið er inn á flöt og þá dugar ekkert annað en að slá góð högg. Þessar þrjár brautir eru nokkur konar Amen corner a la Augusta National. Undirritaður mælir með því að líta vel í kringum sig og njóta fegurðar, jafnvel þó skorið hafi ekki verið gott. 

Montgomery völlurinn er „inland linksari“ eða strandvallagolfvöllur inni í landi. Brautirnar eru aðeins breiðari en á O’Meara en ef maður hittir þær ekki bíður þykkt röffið. Montgomery er par 72 og er 6500 metrar af öftustu teigum en nokkuð styttri fyrir meðalkylfinginn. Það sem gerir Montgomery talsvert erfiðari eru gríðar margar sandglompur sem hirða mörg högg en 130 glompur eru á vellinum og margar þeirra eru djúpar og stórar. Orðrómur var á kreiki á Carton svæðinu að Colin Montgomery hafi verið í fúlu skapi eftir skilnað við eiginkonu sína þegar hann hannaði völlinn og hann hafi viljað hafa hann erfiðan með glompum að því er virðist úti um allt. Völlurinn er lengri en O’Meara, og nokkuð erfiðari fyrir meðalkylfinginn og kannski ástæðan fyrir því að stórmót á borð við Írska atvinnumannamótið hafi verið haldið þar. Fyrsta brautin er t.d. mjög erfið byrjunarhola þar sem par er frábært skor. Átjánda brautin liggur meðfram ánni Rye og þar er boðið í fugladans á flottri lokabraut. Flatirnar eru nokkuð hraðari og bjóða upp á mikið landslag. Við mælum með því kylfingar spili O’Meara völlinn fyrst - til að tengja við svæðið.

Slegið á 4. teig á Monty vellinum.
Herbergin og öll aðstaða á hótelinu er fyrsta flokks.

Glæsilegar aðstæður

Klúbbhúsið er glæsilegt og þar er veitingastaðurinn The Carriage House þar sem hægt er að fá sér drykk og léttar veitingar að loknu golfi og einnig að snæða flottan kvöldverð. Hótelið var allt tekið í gegn og endurnýjað í heimsfaraldri en það er í eigu risakeðjunar A Fairmont hotels. Þar er Veitingastaðurinn Kathleen’s kitchen og á Morrison veitingastaðnum er hægt að setja sig í gamlan gír því salurinn er 200 ára gamall. Morgunverðurinn er veglegur en hann er snæddur í enn öðrum salnum, The house sem einnig er í elsta parti hótelsins. Fínasti hótelbar er auðvitað á staðnum.

Þeir sem vilja nýta sér Spa geta skellt sér í sloppinn sem bíður manns á hótelherberginu, farið í gufu, sund og heitan pott. Viskí aðdáendur verða ekki fyrir vonbrigðum og síðan er margt fleira í boði eins og síðdegis te eða Afternoon tea sem hægt er að njóta víðs vegar á þessu fallega hóteli. Þá er þjónustan fyrsta flokks eins og við er að búast á fimm stjörnu stað.

Golfverslun er auðvitað á staðnum, nóg af golfbílum og auðvitað er hægt að leigja kerrur, bæði rafdrifnar og „venjulegar“. Sem sagt, glæsilegt golfsvæði sem enginn verður svikinn af að heimsækja.

Allt það besta í mat og drykk.

GB ferðir bjóða upp á ferðir til Carton House og margra annarra skemmtilegra golfsvæða.

Fréttamaður kylfings.is var í hópi félaga úr Golfklúbbi Suðurnesja vorið 2022 og tók meðfylgjandi myndir sem fylgja í myndasafni með fréttinni.