Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 9. ágúst 2021 kl. 15:05

Íslandsmeistarinn er á leið til Denver - „hlakka til“ segir Hulda Clara

Hulda Clara Gestsdóttir, Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar segir að heitur dræver og pútter hafa skipt sköpum í leik sínum á Íslandsmótinu í höggleik á Jaðarsvelli. Þetta er fyrsti titill þessarar 19 ára stúlku sem heillaði alla með skemmtilegri framkomu.

Hún segir aðspurð að það hafi reynt á þolinmæðina að hugsa bara um eitt högg í einu en hún var með forystu frá upphafi til enda móts. „Ég hef alla tíð verið frekar sterk hvað andlegu hliðna varðar, allt frá því ég var unglingur. Þegar maður síðan slær vel, sérstaklega upphafshöggin þá gerir það leikinn talsvert auðveldari á svona erfiðum velli eins og á Jaðri. Það er mjög mikilvægt að ná góðum upphafshöggum til að eiga auðveldrari innáhögg með járnunum. Það gekk upp hjá mér og var úrslitaatriði í því hvað ég lék vel,“ segir Hulda Clara sem fer til Denver í Bandaríkjunum í lok ágústmánaðar. „Já, ég er að fara í háskóla og er spennt fyrir því verkefni. Ég hef að vísu ekki getað farið til að skoða aðstæður en sýnist á öllu að þær séu góðar. Þetta er mjög spennandi,“ sagði Íslandsmeistarinn.