Þriðjudagur 14. febrúar 2017 kl. 06:00

KPMG samningurinn mikilvægur fyrir Ólafíu - nær hún Phil til Íslands?

„Okkar fólk hjá KPMG í Bandaríkjunum varð strax spennt fyrir Ólafíu enda ekki á hverjum degi sem Íslendingur kemst inn á LPGA mótaröðina. Ef vel gengur ætti þessi samningur að verða henni mikilvægur og góður,“ sagði Jón Helgason, framkvæmdastjóri KPMG á Íslandi en fyrirtækið gerði stuðningssamning við Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur.

Ólafía komst í útvalinn hóp kylfinga sem KPMG leggur nafn sitt við en þar ber hæst Phil Mickelson, einn þekktasti kylfingur heims síðustu tvo áratugina. Kvenkylfingurinn Stacey Lewis eru líka hjá fyrirtækinu en hún er einn af fremstu golfkonum í heimi.

Ólafía mun fá fastar greiðslur og árangurstengdar og hún ætti því að geta þénað vel á þessum samningi ef henni gengur vel að sögn Jóns.

Jón segir að starfsmenn KPMG hafi verið gríðarlega spenntir að fylgjast með Ólafíu í fyrsta mótinu á LPGA mótaröðinni í janúar. „Það starfa 270 manns í fyrirtækinu hér heima og það voru allir ótrúlega spenntir að fylgjast með fréttum af henni og það var ótrúlega gaman.“

En mun þessi Íslandstenging í golfinu við KPMG auka vonir okkar um að fá Phil Mickelson til Íslands?

„Ég hef fengið þessa spurningu mjög oft. Ólafía mun hitta hann innan tíðar og vonandi hjálpar hún okkur að fá hann hingað heim. Ég er bjartsýnn á það.“