Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 10. mars 2023 kl. 13:07

Meistaraviðtal Faldo við Nicklaus

Jack Nicklaus er af mörgum talinn besti kylfingur sögunnar. Nick Faldo komst í hóp bestu kylfinga heims og var um tíma efsti maður heimlistans. Sá síðanefndi fór eftir keppnisferil í starf lýsanda í sjónvarpi en lauk þeim ferli á síðasta ári. Hann hefur hins vegar haldið áfram á öðrum miðlum og sýndi nýlega sitt fyrsta hlaðvarpsviðtal undir heitingu Sir Nick’s Round Table Chats og viðmælandinn var Jack Nicklaus. Úr varð frábært viðtal þar sem Nicklaus fer á kostum og rifjar upp ótrúlegustu hluti frá mögnuðum ferli.

Þeir félagar fara yfir feril Nicklaus, Geitarinnar, „THE GOAT“, en ræða einnig margt annað eins og vináttu Nicklaus við Arnold Palmer og Gary Player. Einnig Tiger Woods og fílinn í herberginu, Liv mótaröðina.

Þess má geta að Nicklaus er Íslandsvinur. Hann kom marg oft til laxveiða og nokkrum sinnum hélt hann golfsýningu í leiðinni, m.a. á Nesvellinum, í Borgarnesi og á Akureyri síðast 1992. 

Faldo er líka Íslandsvinur en hann hannaði golfvöllinn Svarta Sand - Black Sand sem átti að vera í Þorlákshöfn. Þær framkvæmdir urðu þó ekki að veruleika og fóru fyrir lítið í bankahruninu.