Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 14. ágúst 2023 kl. 17:03

Pabbi hágrét eftir lokapúttið

„Ég get ekki lýst þessu en ég hágrét. Tilfinninin var svo geggjuð að ég fékk gæsahúð. Við unnum vel saman í mótinu og hann treysti á gamla kallinn,“ segir Sigurður Sigurðsson, kylfusveinn og faðir Loga, eftir að sonurinn hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í golfi 2023 á Urriðavelli í Garðabæ á sunnudag.

„Ég fann þetta á mér þegar við vorum að hefja leik á lokadeginum. Hann var svo vel „peppaður“ og einbeittur. Logi átti spjall við Brynjar vin okkar í Grindavík kvöldinu áður og það hjálpaði til.“

En hvað segir Sigurður um spennuna á síðustu flötinni en Logi þurfti að setja niður um eins og hálfs metra pútt?

„Hann var aldrei að fara að missa þetta pútt. Hann hafði ekki gert það í öllu mótinu og var allt mótið með mikla trú á sjálfum sér. Þetta var geggjað en ég viðurkenni að ég var stressaður allan tímann, frá fyrsta höggi og til þess síðasta. Það er partur af þessu, adrenalínið á fullu og ég lifði mig inni í þetta með honum. Það var svo gaman,“ sagði faðirinn stoltur en Logi er fertugasta og fyrsta nafnið sem fer á Íslandsbikarinn. Pabbinn er þrjátíu og fimm línum ofar en Sigurður varð Íslandsmeistari í Grafarholti árið 1988.

Logi er fimmti Íslandsmeistari Golfklúbbs Suðurnesja í karlaflokki. Örn Ævar Hjartarson vann 2001, Sigurður Sigurðsson 1988, Gylfi Kristinsson 1983 og Þorbjörn Kjærbo þrívegis, árin 1968 til 1970.

Feðgar hafa áður hampað titlinum. Árið 2009 sigraði Ólafur Loftsson en faðir hans, Loftur Ólafsson varð Íslandsmeistari 1972. 

Feðginin úr Hafnarfirði þau, Guðrún Brá Björgvinsdóttir (3 titlar) og Björgvin Sigurbergsson (4 titlar) hafa bæði hampað titlinum.

Þá hafa mæðgurnar úr Keflavík, þær Karen Sævarsdóttir og Guðfinna Sigurþórsdóttir báðar orðið Íslandsmeistarar. Karen vann átta ár í röð og Guðfinna sigraði þrisvar sinnum og var fyrsti Íslandsmeistari kvenna.