Poulter: Loksins farin að setja niður pútt
Englendingurinn Ian Poulter hafði ástæðu til að fagna eftir að hann lagði landa sinn Luke Donald í úrslitaleik á Volvo World Match Play mótinu sem lauk í dag. Poulter sannaði enn einu sinni hversu góður hann er í holukeppni og nú með að leggja af velli einn heitasta kylfing heims í úrslitaleik.
„Til hamingju með afmælið Luke,“ sagði Poulter og átti þar við son sinn sem fagnaði sjö ára afmæli sínu í dag. „Þetta er afar sérstakur sigur fyrir mig. Ég er loksins farinn að setja niður pútt. Árangurinn á undanförnum mánuðum hefur farið í taugarnar á mér og þú verður að setja niður pútt til að vinna.“
Poulter setti svo sannarlega niður nokkur glæsileg pútt í dag og sum sem fáir áttu von á. Donald var vonsvikinn í mótslok enda missti hann af gullnu tækifæri á að ná efsta sætinu á heimslistanum. „Ég er vonsvikinn. Mig vantaði orku undir lokin og nýtti ekki færin sem ég fékk.“
Þetta er ellefti sigur Poulter á Evrópumótaröðinni en hann hefur tekið þátt í 252 mótum á ferlinum. Alls hefur Poulter unnið fjórtán mót á heimsvísu og fer væntanlega upp heimslistann þegar nýr listi verður birtur á morgun.