Watson sigraði í þriðja sinn eftir bráðabana
Bandaríski kylfingurinn Bubba Watson sigraði í þriðja sinn á PGA-mótaröðinni í gærkvöldi þegar hann bar sigur úr býtum á Zurich Classic mótinu eftir bráðabana við landa sinn Webb Simpson. Þeir léku báðir á 15 höggum undir pari og hafði Watson betur á annarri holu í bráðabana.
Fyrir sigurinn fékk Watson um 120 milljónir króna í sinn hlut og lyfti sér upp í 10. sætið á heimslistanum. Þetta er annar sigur hans á mótaröðinni í ár en Watson vann sinn fyrsta sigur síðasta sumar. Honum hefur heldur betur vaxið ásmegin á undanförnum mánuðum og er nú með bestu kylfingum heims.
Jason Dufner lék best allra á lokahringnum eða á 66 höggum. Hann lyfti sér í kjölfarið upp í þriðja sæti sem hann deildi með Tommy Gainey og K.J. Choi. Englendingurinn Luke Donald lék lokahringinn á 69 höggum og náði enn á ný á þessari leiktíð að enda á meðal tíu efstu kylfinganna. Hann varð í 8. sæti á tíu höggum undir pari.