Þriðjudagur 28. nóvember 2017 kl. 22:18

World Golf Awards - VITAgolf besta íslenska golfferðaskrifstofan þrjú ár í röð

-Víkingaklappið var spilað þegar úrslitin voru kynnt. Hvaleyrin besti völlurinn.

„Það var mögnuð stemmning þegar víkingaklappið var spilað og greint frá því að VITAgolf hafi verið kjörin besta golfferðaskrifstofan á Íslandi, þriðja árið í röð,“ segir Peter Salmon framkvæmdastjóri VITAgolf en hann tók við viðurkenningunni á hátíð World Golf Awards en það eru alþjóðlega samtök í golfferðaþjónustunni og partur af samtökunum World Travel Awards sem hafa verið í gangi í tuttugu og fjögur ár.
Englendingurinn og sjónvarpsmaðurinn kunni Steve Rider afhenti verðlaunin á hátíðinni sem haldið var á La Manga golfsvæðinu á Spáni  sl. laugardag. Heiðursgestur kvöldsins var þekktasti golfþulur í heimi, Peter Alliss.

„Maður fyllist stolti þegar aðilar í ferðaþjónustunni úti um allan heim sýna manni þessa virðingu og veita þessa viðurkenningu eftir að hafa verið aldarfjórðung í golfferðabransanum. Það var gaman að taka við viðurkenningunni og vera fulltrúi Íslands, VITAgolf og Icelandair Group á þessu augnabliki,“ segir Peter en þetta var þriðja árið í röð sem VITAgolf er útnefnd besta golfferðaskrifstofan en auk hennar voru GB ferðir, Golfskálinn, Úrval Útsýn og Iceland ProTravel útnefndar. Samtökin World Travel Awards veita 3-4 viðurkenningar í flestum löndum.

World Golf Awards veita viðurkenningar í nokkrum flokkum, þrír aðilar á Íslandi voru útnefndir. Auk þess að útnefna bestu golfferðaskrifstofuna velja samtökin besta golfvöllinn á Íslandi. Að þessu sinni var Hvaleyrarvöllur valinn en auk hans voru tilnefndir: Jaðarsvöllur á Akureyri, Garðavöllur á Akranesi, Grafarholtsvöllur, Hólmsvöllur í Leiru, Oddur og golfvöllurinn í Vestmannaeyjum.

Þá var Hótel Örk valið besta golfhótelið á Íslandi. Önnur sem voru tilnefnd voru Grand Hótel í Reykjavík, Centrum hótelið og Radisson Blu 1919, einnig í Reykjavík.

Meðal annarra viðurkenninga á heimsvísu má nefna að Jack Nicklaus var kjörinn golfvallahönnuður ársins, Portúgal var valinn besti golfáfangastaðurinn, Gamli völlurinn í St. Andrews besti völlurinn, La Manga á Spáni besta golfsvæðið og besta klúbbhúsið í heimi 2017 er á Stoke park golfvellinum í Englandi.  Taylor Made var valið besta merkið í golfkylfum og golfskóm. Þá var Ástralinn Ian Baker-Finch heiðraður en hann fékk viðurkenninguna „Lifetime Achievement Award 2017“. Hann er núna sjónvarpsmaður en var frábær kylfingur á sínum tíma og vann m.a. Opna breska.
Samtökin standa fyrir kjörinu stóran hluta úr ári hverju og eru aðilar í ferðaþjónustunni sem greiða atkvæði í kjörinu en einnig geta ferðamenn kosið.

VITA-golf-arnir frá Íslandi, Peter, Signhild og Margrét við verðlaunaafhendinguna.

Hvaleyrin var valin besti völlurinn á Íslandi.