Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 6. ágúst 2022 kl. 09:36

„Pútterinn var heitur“

Forystusauðurinn Birgir Guðjónsson spilar golf einu sinni í viku.

„Pútterinn var heitur og ég var góður af teig. Þetta var bara draumahringur,“ segir Birgir Guðjónsson, GE en hann er í forystu eftir 36 holur á Íslandsmótinu í Eyjum.

Það setja eflaust einhverjir upp spurningamerki við nafn Birgis en hann hefur ekki verið í hópi bestu kylfinga landsins undanfarin ár. Hann var þó í þeim hópi fyrir all nokkrum árum síðan en segist þó alltaf mæta á Íslandsmót og keppa fyrir Golfklúbbinn Esju í sveitakeppni.

„Ég mæti í Íslandsmót því mér finnst það svo ótrúlega skemmtilegt, svo spila ég í sveitakeppninni og síðan hittumst við strákarnir í golfi á mánudögum. Þá er mín spilamennska upptalin,“ segir Birgir sem hefur náð best 11. sæti á Íslandsmóti.

„Jú, ég er að koma sjálfum mér á óvart en þetta er til þarna einhvers staðar. Ég hef ekki tekið þátt í stigamóti í mörg ár en ég skráði mig í Hvaleyrarbikarinn fyrir tveimur vikum og það var bara gaman. Ég er nú bara í þessu til þess.“

Hvernig var svo þessi draumahringur? 

„Ég setti niður löng pútt á 1. og 2. holu og komst í smá gír, sérstaklega á flötunum en svo var ég góður af teig. Fékk fjóra fugla á fyrri níu en tvo skolla, fugl á 10. holu en svo lenti ég í einu vandræðunum á 13. holu. Innáhöggið mitt fór aðeins hægra megin við flötina og ég hélt að þetta væri allt í lagi en við fundum ekki boltann. Ég sló því annað innáhögg og fékk par á þann bolta en þarna fóru tvö högg. Svo kom í ljós að boltinn minn hafði lent á göngustígnum og endaði út á 14. braut. En ég svaraði þessu með góðum fugli á 14. holu og svo fékk ég gott upphafshögg á fimmtándu sem endaði í flatarkanti. Það pútt rataði rétt leið í holu, gaman að fá örn, og má því segja að ég hafi bætt upp strax upp fyrir mistökin á þrettándu,“ segir okkar maður sem var með sex pör, 8 fugla, einn örn, tvo skolla og einn tvöfaldan skolla í hringnum.

Það er ekki víst að margir hefðu veðjað upp á að mánudagskylfingurinn myndi klára síðustu þrjár holurnar í Eyjum með tveimur fuglum til viðbótar, á 17. og 18. og boltinn hjá Birgi stöðvaðist á holubrúninni eftir 1,5 metra pútt á 16. flöt. En jú og Birgir fagnaði frábærum hring upp á 64 högg, besti hringur mótsins í hús. Tvö högg frá vallarmeti Haraldar Franklíns.

„Þetta var kannski reynsla og trú sem skilaði þessu. Völlurinn er geggjaður, í algeru toppstandi, frábærar flatir. Það er ekki hægt að setja niður þessi pútt nema þau séu góð. Það er þægilegur hraði á þeim og flatirnar halda vel línu.“

En hvernig leggst framhaldið í þig og það vera í forystu á Íslandsmótinu? 

„Þetta er skemmtileg tilbreyting og ég ætla bara halda áfram að hafa gaman. Þetta snýst ekki um annað hjá mér. En að verður gaman gaman að kljást við þessa stráka og ég ætla að gera mitt besta,“ sagði Birgir Guðjónsson.