Nettó - Samkaup
Nettó - Samkaup

Viðtal

Golf er öflug forvörn fyrir sjúkdóma og kvilla
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
föstudaginn 3. júní 2022 kl. 19:08

Golf er öflug forvörn fyrir sjúkdóma og kvilla

„Við finnum fyrir auknum áhuga á golfi eldri kylfinga,“ segir Gauti Grétarsson, formaður LEK - Landssamtaka eldri kylfinga.

Kylfingar 50 ára og eldri eru stærsti einstaki hópurinn í golfi á Íslandi. Öflugt starf er unnið innan félagsins og fjölmargir vel sóttir viðburðir fara fram á hverju ári á vegum þess. Fyrsta mótið á Icewear mótaröðinni fór fram á Hlíðavelli Golfklúbbs Mosfellsbæjar sl. sunnudag. Gauti segir vel hafa tekist til og mikil almenn ánægja verið meðal þátttakenda.

GKG sumarhermar
GKG sumarhermar

Næsta mót á mótaröðinni, Opna Ping mótið, fer fram á Hvaleyrarvelli Golfklúbbsins Keilis í Hafnarfirði og Gauti segir allt vera klárt fyrir kylfingana í Hvaleyrinni.

„Völlurinn er í toppstandi og allt upp á 10, alveg eins og það á að vera. Við hjá LEK erum einkar lánsöm með samstarfsaðila en átta samstarfsaðilar koma að mótunum. Icewear eigum við auðvitað mikið að þakka sem aðal samstarfsaðili mótaraðarinnar. Það hefur gengið mjög vel að fá aðila til samstarf og fyrir það erum við þakklát. Við höfum gert samning við Icewear til tveggja ára sem gerir okkur m.a. kleift að auglýsa mótin okkar betur. Þá getum við veitt verðlaun í öllum flokkum ásamt nándarverðlaunum. Mig langar að nota tækifærið og þakka einnig þeim fyrirtækjum sem hafa og munu útvega verðlaun í sumar. Þau eru 66° Norður, Ping, Örninn, Kaffitár, Nespresso og Bláa Lónið og þá útvegar fyrirtækið Sóley organics verðlaun á par 3 holur í sjö mótum sumarsins. Við viljum þakka þessum fyrirtækjum fyrir stuðninginn - án þeirra væri starfið erfiðara,“ segir Gauti.

Gauti Grétarsson, formaður LEK. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar

Nú var þátttaka á mótaröðinni góð á síðasta ári, finnið þið fyrir auknum áhuga í ár?

„Við í stjórninni finnum fyrir auknum áhuga á golfi eldri kylfinga. Við leggjum áherslu á það við stjórnvöld að það að iðka golf sé öflug forvörn fyrir sjúkdóma og kvilla síðar á lífsleiðinni og hægi á öldrunareinkennum. Rannsóknir sýna að þeir sem stunda golf eru í betra formi en þeir sem gera það ekki. Spila þar margir þættir inn í, bæði líkamlegir, andlegir og félagslegir. Það að ganga 9 eða 18 holur nokkrum sinnum í viku með tilgangi í góðum félagsskap hefur áhrif á eflingu andans og lýðheilsuáhrifin eru mikil.“

Síðasta sumar var liðakeppni í öldungamótaröðinni sett á laggirnar þar sem einstaklingar gátu skráð sig í lið og keppt þannig samhliða einstaklingskeppninni.

„Það er ný upplifun fyrir suma kylfinga sem eru oft meira uppteknir af eigin frammistöðu en frammistöðu einhverra annarra. Í fyrra byrjuðum við með liðakeppni karla 65 ára og eldri og í sumar ætlum við að gera sama með konur 65 ára og eldri. Það er ánægjulegt að áhugi íslenskra kvenna á golfi er að aukast. Við sjáum það á öllum golfvöllum að konurnar eru heldur betur mættar til leiks. Það finnst mér mikilvægt þar sem kvennagolf er á uppleið í heiminum og samhliða auknum áhuga kvenna fjölgar stelpum í golfi sem er mjög mikilvægt.“

Er fleira á döfinni hjá LEK í sumar?

„Við erum að senda landslið til keppni erlendis. Kvennalandsliðið keppir á Marisa Sgaravatti Trophy í júlí og karlalandslið 65 ára og eldri keppir á Ítalíu. Að lokum keppir 55 ára landslið karla í París í byrjun ágúst.“

„Mig langar að lokum að þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem lagt hafa okkur lið og þeim sem almennt gefa vinnu sína í þágu golfíþróttarinnar á Íslandi. Það krefst mikils utanumhalds að halda 8 mót á einu sumri og margar hendur þarf til. Sjálfboðaliðar eru dýrmætur fjársjóður í íslenskum íþróttum og án öflugra bakhjarla væri erfitt að halda samtökum eins og LEK gangandi,“ segir Gauti Grétarsson, formaður Landssamtaka eldri kylfinga að lokum.