Viðtal

Heilmikið mótahald í Vestmannaeyjum í sumar
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 3. maí 2022 kl. 17:41

Heilmikið mótahald í Vestmannaeyjum í sumar

„Við Vestmannaeyingar erum fullir tilhlökkunar að taka á móti gestum í allt sumar,“ segir Sigursveinn Þórðarson, formaður GV.

Íslandsmótið í golfi fer fram í Vestmannaeyjum dagana 4.-7. ágúst nk. Heilmiklar framkvæmdir hafa staðið yfir á vellinum og verið er að byggja við klúbbhúsið.

„Viðbyggingin mun breyta heilmiklu fyrir okkur en bæði verður salurinn bjartari og skemmtilegri og býður upp á enn meiri möguleika fyrir okkur. Þá erum við að útbúa búningaaðstöðu fyrir konurnar sem og að lappa upp á aðstöðuna fyrir karlana. Á neðri hæðinni erum við svo með aðstöðu fyrir hermana okkar. Við erum nú þegar með tvo herma en stefnan er að bæta við þriðja herminum við tækifæri. Útsýnið úr nýju byggingunni er æðislegt. Við munum sjá bæði niður á 9. og 18. flötina sem er auðvitað mjög skemmtilegt í kringum allt mótahald,“ segir Sigursveinn Þórðarson, formaður Golfklúbbur Vestmannaeyja.

Vestmannaeyjabær hefur komið að framkvæmdunum.

„Sveitarfélagið á hrós skilið en við höfum mætt miklum skilningi og bærinn hefur komið að framkvæmdunum með myndarlegum hætti og eiga forsvarsmenn bæjarins hrós skilið.“

Vestmannaeyjavöllur fór illa í vetur þegar sjó gekk á land ítrekað og miklu efni skolaði inn á völlinn.

„Það er óhætt að segja að það hafi miklu skolað á land og ég verð að viðurkenna að okkur brá svolítið eftir þennan hamagang. Efnið hafnaði að mestu á 16. brautinni en það er búið að hreinsa allt núna og það eru ekki varanlegar skemmdir vegna þessa. Við fengum hjálp frá Golfklúbbi Mosfellsbæjar en vallarstarfsmenn frá GM komu og hjálpuðu okkur að hreinsa völlinn og mættu m.a. með tæki til að blása grjótinu í burtu. Golfklúbbur Mosfellsbæjar á miklar þakkir skilið.“

Þá varð mikið tjón á 17. teignum en hann skolaðist alfarið út í sjó.

„Þetta er heilmikið tjón. Við þurfum að keyra 150 rúmmetra af efni þarna út í uppbyggingu á teignum en við munum nota tækifærið og stækka hann aðeins. Þeir sem þekkja svæðið vita að það er lítill þröngur stígur út á teiginn. Við þurfum að keyra efnið út á litlum bíl sem kemst þessa leið og þurfum að fara rúmlega 200 ferðir með efni þegar allt er talið. Þá er ekki einfalt að koma tækjum þarna út.“

Sigursveinn segir völlinn koma vel undan vetri að öðru leiti og að allar flatir séu tilbúnar nema sú 17. en völlurinn var opnaður um helgina þó 17. brautin sé lokuð vegna þeirra viðgerða sem þar fara fram.

Það ríkir auðvitað mikil eftirvænting fyrir Íslandsmótinu í ágúst en Sigursveinn segir þó margt annað framundan í mótahaldi í Vestmannaeyjum.

„Við stefnum á að vera með veglegt opnunarmót og vígslu á breyttum skála núna 28. maí nk. Þá eru eldri kylfingarnir okkar með veglegt opið styrktarmót fyrir keppnissveit sína fyrstu helgina í júní. Sjómannadagshelgina eða aðra helgina í júní er Ísfélagið með gríðarlega myndarlegt mót og goslokahelgina, fyrstu helgina í júlí er Icelandair Volcano Open sem er svolítið okkar gimsteinn í mótahaldi. Mótið hefur verið gríðarlega vinsælt mót og vel sótt. Icelandair hefur verið góður bakhjarl þess móts í mörg ár. Það selst yfirleitt upp á Icelandair Volcano Open á nokkrum klukkustundum eftir að opnað hefur verið fyrir skráningu. Kvennasveitin okkar er þá með styrktarmót um miðjan júlí og hafa þær verið duglegar að safna flottum verðlaunum í það. Einnig höldum við mjög vinsæla hjóna- og parakeppni í samstarfi við GolfSaga helgina fyrir Þjóðhátið, næst síðustu helgina í júlí. Við erum að halda það mót núna í þriðja sinn og erum alltaf að reyna að þróa það og bæta en það er Bjarni Ólafur Guðmundsson sem hefur verið driffjöður í því móti. Það mót er eitt af skemmtilegri mótum ársins hjá okkur. Öll þessi mót hafa verið sótt.“

Sigursveinn segir félagsstarfið vera mjög blómlegt í Eyjum.

„Það hefur aðeins reynt á það núna í þessum framkvæmdum en við höfum fengið góða hjálp frá okkar félagsmönnum og erum þeim afskaplega þakklát. Barna- og unglingastarfið hefur verið í afskaplega góðum höndum Karls Haraldssonar og var GV t.a.m. fyrsta íþróttafélagið í bænum til að fá viðurkenningu sem fyrirmyndafélag ÍSÍ.“

Talið berst að afreksstarfi hjá Golfklúbbi Vestmannaeyja. Segir Sigursveinn að klúbburinn sé í samstarfi við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum með sérstaka námsbraut fyrir kylfinga. Þá eru tveir kylfingar úr GV í háskólagolfinu í Bandaríkjunum og nokkrir yngri sem eru einnig efnilegir.

Þá segir Sigursveinn að stöðug fjölgun hafi verið í GV sem og mörgum öðrum klúbbum hér á landi. Hann segir kvennastarfið hafa vaxið og að hann bindi vonir við að það vaxi enn frekar.

Sigursveinn segir undirbúning hafinn fyrir Íslandsmótið í ágúst og segir að lokum að þeir Vestmannaeyingar séu fullir tilhlökkunar að taka á móti gestum þá og í allt sumar.